Segir ásakanirnar fjarstæðukenndar

Hjúkrunarheimilið Berg í Bolungarvík.
Hjúkrunarheimilið Berg í Bolungarvík.

„Umbjóðandi minn hefur ekki á neinum tíma falsað gögn eða villt á sér heimildir.“ Þetta kemur fram í yfirlýsingu lögmanns konu úr bakvarðasveitinni sem var handtekin, grunuð um að hafa fram­vísað fölsk­um gögn­um um starfs­rétt­indi sín sem heil­brigðis­starfsmaður og að hafa mis­farið með lyf.

Konan var hluti af bakvarðateymi sem svaraði hjálparbeiðni Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða vegna veiru­sýk­ing­ar og mann­eklu á dval­ar­heim­il­inu Bergi í Bol­ung­ar­vík.

Í yfirlýsingunni segir að konan hafi við skráningu í bakvarðasveit upplýst yfirboðara sína um menntun og reynslu. Hún hafi um árabil starfað við umönnun og sótt nám við enska skóla og háskóla við sjúkraliðun og „nursing assistant“.

Konan hafi leitað eftir því við háskólayfirvöld hér á landi að menntun hennar yrði metin svo hún gæti öðlast tilskilin starfsleyfi á Íslandi. Áður hafi verið óskað eftir aðstoð hennar við Heilbrigðisstofnun Vestfjarða.

„Þar gekk hún í þau störf sem yfirboðarar hennar fólu henni, svo sem að snúa sjúklingum, taka hita, gefa þeim að drekka, þvo þvotta o.fl. Yfirvöld höfðu fengið allar upplýsingar um menntun hennar og reynslu. Hún fór aldrei dult með að menntun hennar hefði enn ekki verið metin af háskólayfirvöldum á Íslandi en var boðin og búin til aðstoðar,“ segir í yfirlýsingunni.

Enn fremur eru aðrar ásakanir á hendur konunni sagðar fjarstæðukenndar og úr lausu lofti gripnar. Konan væntir þess að rannsókn lögreglu muni hreinsa hana af þessum alvarlegu ávirðingum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert