Ef fresta ætti sektum fyrir notkun nagladekkja eftir 15. apríl vegna útbreiðslu kórónuveiru hérlendis þyrfti að setja sérreglugerð um frestun vegna utanaðkomandi aðstæðna, að sögn Árna Friðleifssonar, aðalvarðstjóra umferðardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Morgunblaðið leitaði til hans til að kanna hvort fresta ætti sektum vegna nagladekkja svo örtröð yrði ekki á dekkjaverkstæðum með tilheyrandi smithættu en notkun nagladekkja er óheimil frá og með 15. apríl.
„Við erum svo sum ekkert byrjaðir að spá í það,“ sagði Árni. Veðurfarslegar aðstæður geta frestað því að sektað sé vegna nagladekkja en að sögn Árna er það metið hverju sinni hvenær tímabært sé að fólk skipti um dekk.