Þúsundum verður lokað

Ferðamenn á Skólavörðustíg.
Ferðamenn á Skólavörðustíg. mbl.is/Árni Sæberg

Ef svo fer að ferðatakmarkanir verða á flæði fólks til og frá landinu næstu mánuði má ráðgera að meirihluti fyrirtækja í ferðaþjónustu neyðist til að skella í lás. Þetta segir Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF), í Morgunblaðinu í dag.

Að hans sögn er ekki raunhæft að halda tekjulausum fyrirtækjum opnum svo mánuðum eða árum skipti. „Það er alveg ljóst að ef það verða hömlur í eitt eða eitt og hálft ár þá þarf að fá lausnir sem gera fyrirtækjum kleift að vera lokuð í þann tíma. Það þarf hið minnsta að gera fyrirtækjum kleift að bregðast við þeirri sviðsmynd,“ segir Jóhannes og bætir við að rekstur í slíku ástandi sé til einskis.

Ef af verður má reikna með að fjöldi fyrirtækjanna, sem loka þarf tímabundið hið minnsta, hlaupi á þúsundum. Það er jafnframt meirihluti fyrirtækja sem starfa á sviði ferðaþjónustu hér á landi. Segir Jóhannes að kanna verði leiðir sem komi í veg fyrir gjaldþrot umræddra fyrirtækja.

Gylfi Magnússon, dósent við HÍ, tekur í svipaðan streng og segir að búast megi við að vandi ferðaþjónustunnar verði langvarandi. Bendir Gylfi á að viðbúið sé að langan tíma muni taka að fá sambærilegar farþegatölur og landsmenn áttu að venjast áður en faraldurinn skall á.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert