„Jarðarbúar eru að krossfesta heimili sitt jörðina“

Agnes Sigurðardóttir, biskup Íslands.
Agnes Sigurðardóttir, biskup Íslands. mbl.is/Kristinn Magnússon

Agnes Sigurðardóttir, biskup Íslands, minntist á kórónuveirufaraldurinn og loftslagsáhrif í páskapredikun sinni sem flutt var fyrir tómri Dómkirkju í dag. 

„Það eru undarlegir tímar sem við lifum á. Hverjum hefði dottið það í hug þegar við komum saman hér í Dómkirkjunni í Reykjavík á hátíð ljóss og friðar, jólunum, að hér yrði nánast tóm kirkja á næstu hátíð, páskahátíðinni, upprisuhátíðinni. Þá var kirkjan þéttsetin en nú er öldin önnur. Samkomubann hefur verið í gildi um hríð og við virðum það ásamt öðrum þeim tilmælum sem almannavarnir hafa beðið okkur að virða,“ sagði Agnes í upphafi prédikunar. 

Agnes talaði um að þegar lífsgrundvellinum væri ógnað gilti samstaðan. Við værum öll almannavarnir og unnið væri hörðum höndum að þróun bóluefnis, nauðsynlegur búnaður og tæki væru fundin, flutt og gefin. Þannig birtist umhyggjan. 

„Þessir páskar eru öðruvísi en flestir aðrir.  Fólk hópast ekki saman til að renna sér á skíðum eða hitta ættingja og vini. Nú hefur það tekist sem kannski engum hefði dottið í hug, að fyrirmælum er hlýtt. Við stöndum frammi fyrir ógn sem hefur tekið líf fjölda fólks, veikt aðra og lagt efnahagskerfi heimsins á hliðina. Þegar lífinu og lífsgrundvellinum er ógnað þá gildir samstaðan.“

Þurfum að hlýða kalli umhverfisins

Agnes talaði um upprisu náttúru og umhverfis og hlutverk kirkjunnar í hvatningu jarðarbúa til sjálfbærni í lífsháttum. 

„Vísindamenn hafa fært okkur heim sanninn um að losun gróðurhúsalofttegunda vegna lífshátta margra jarðarbúa hefur valdið ofhlýnun jarðar og stefnir í að hlutar heimsins verði óbyggilegir.“

Hafi kórónuveirufaraldurinn sýnt að með samtakamætti og einbeittum vilja sé hægt að ná markmiðum loftlagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í París 2015. 

Ljósmynd sem tekin var á páskadagsmorgun, á Helgafelli við sólarupprás. …
Ljósmynd sem tekin var á páskadagsmorgun, á Helgafelli við sólarupprás. Myndin heitir Guð geislar á guma. Ljósmynd/Biskup Íslands

„En svo hryggilegt sem það er þá hefur veiran skæða orðið til þess að stopp hefur verið sett á daglegt líf jarðarbúa og á sama tíma berast þær gleðilegu fréttir að íbúar í Punjabhéraði, nyrst á Indlandi, sjái nú loks aftur til Himalajafjalla sem þeir hafa ekki séð síðustu þrjátíu árin vegna mengunar. Að gervihnattamyndir sýni að mikið hafi dregið úr loftmengun í Kína og að síkin í Feneyjum séu aftur orðin tær. 

Við höfum verið að stefna í þessa áttina, að minnka mengun og auka loftgæði, en það hefur gengið allt of hægt. En þessar fréttir sýna, svo ekki verður um villst, að með samtakamætti og einbeittum vilja er hægt að ná því markmiði sem samþykkt var á loftslagsráðstefnunni í París árið 2015 að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda þannig að hnattræn hlýnun verði ekki meiri en 2°.“

Líkt og Íslendingar hlýði Víði verði jarðarbúar að hlýða kalli umhverfis síns sem hrópi á hjálp til að geta lifað áfram. Jarðarbúar séu að krossfesta heimili sitt jörðina og breytt lífsviðhorf og lífshættir séu það sem þurfi svo hún rísi og lifni á ný.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Stöndum saman

Við hjá Árvakri viljum vekja athygli á því sem vel er gert á þessum erfiðu tímum. Ef þú ert með góða sögu af fyrirtækjum og einstaklingum sem eru að gera gott, sendu okkur ábendingu á netfangið stondumsaman@mbl.is.

Stöndum saman

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka