„Síðhærðir menn og menn með sítt og mikið skegg eru alveg velkomnir ennþá. Senan hendir þeim ekkert öfugum út. En þungarokkarinn sem stereótýpa er dauður! Sama má segja um hipphopparann sem stereótýpu. Innra útlitið er komið meira inn í spilið, ef þú skilur hvað ég er að fara? Ég meina, það sem þú hefur að segja skiptir meira máli en í hvernig bol þú ert. Mín kynslóð hefur engan áhuga á því hvernig þú lítur út, bara hvaða manneskju þú hefur að geyma.“
Þetta segir Jón Már Ásbjörnsson, söngvari hins framsækna málmbands Une Misère, í viðtali við Sunnudagsblað Morgunblaðsins.
Hann heldur áfram með þessa pælingu. „Ég hef svo sem engan sérstakan áhuga á að tala um kynslóðabilið en þetta er eigi að síður ágætt dæmi um það. Þegar ég er í strætó pæli ég ekkert í því í hverju næsti maður er. Ef það eru fjögur göt á buxunum hans kemur það mér hreint ekki við. Það auðgar ekki líf mitt á neinn hátt að hugsa um það, hvað þá að tuða yfir því. Sama máli gegnir um manninn í götóttu buxunum. Kynslóð foreldra minna myndi aftur á móti pæla heilmikið í þessu. Af hverju ætli þessi göt séu á buxum aumingja mannsins? Og þar fram eftir götunum.“
Tónlist Une Misère er allt í senn, þung, myrk og hröð og Jón Már rymur sinn brag af lífi og sál; skilur eftir lifur og lungu á gólfinu. Myrkrið nær ekki síður yfir í textana, sem einkennast af þjáningu og raunum. Ort er á ensku en á frumburði sveitarinnar, Sermon, má finna lög eins og Overlooked – Disregarded, Burdened – Suffering, Beaten, Grave og Failures. Sjálft titillagið fjallar um innri baráttu manns sem þráir að jarða sjálfan sig og myndi leggja á sig ferðalag að endimörkum veraldar til að sökkva sér í sæ.
„Fortíð mín spilar stórt hlutverk þegar kemur að textunum,“ segir Jón Már en hann semur alla texta sem hann syngur sjálfur. Aðrir það sem þeir syngja. „Við höfum öll annaðhvort reynt það á eigin skinni eða horft upp á einhvern nákominn fara illa út úr neyslu, hvort sem það er áfengi eða harðari fíkniefni. Við þekkjum líka að Íslendingur í neyslu er allt öðruvísi en til dæmis Bandaríkjamaður í neyslu; tilætlunarsemin er svo rótgróin í okkur. Þetta verður allt svo ofboðslega tilfinningalegt; ekki síst ef við fáum ekki það sem við viljum. Það er svo merkilegt að textarnir sem aðrir í bandinu semja kallast mjög vel á við mínar tilfinningar. Mér líður stundum eins og ég hafi samið þá sjálfur. Sem er magnað.“
Allir textarnir sem Jón Már semur á plötunni vísa þráðbeint í hans eigin reynslu. „Ég var á mjög vondum stað í lífinu; í þungri dagneyslu í eitt til eitt og hálft ár. Fljótt á litið virkar það kannski ekkert svo langur tími en ég get lofað þér að það horfir öðruvísi við þegar maður lifir þetta sjálfur. Ég bar gæfu til að losa mig undan þessu oki í ágúst 2016 og hef ekki litið um öxl síðan. Ég hætti ekki bara að nota hörð fíkniefni; ég hætti líka að drekka áfengi og nota tóbak. Þetta er allt farið. Og ég er alveg ótrúlega fínn.“
Hægt er að lesa viðtalið í Sunnudagsmogganum sem kom út í dag og hér á mbl.is í vefútgáfu Morgunblaðsins: