Vill að launahækkun þingmanna verði felld niður

Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata.
Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata, telur rétt að hætt verði við launahækkanir þingmanna og ráðherra í ljósi þeirra aðstæðna sem nú eru uppi í samfélaginu. Til stendur að ræða málið á fundi formanna þeirra flokka sem nú sitja á þingi á þriðjudag. 

Halldóra segir í samtali við mbl.is að hún hafi tjáð Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra áhyggjur sínar vegna fyrirhugaðra launahækkana. Hún segir Katrínu hafa tekið vel í að eiga umræðu um málið. 

Laun þingmanna og ráðherra hækka eða lækka árlega miðað við vísitölu. Fyrsta slíka launahækkunin eftir að kjararáð var lagt niður átti að verða í júlí 2019, en henni var frestað vegna kjaradeilna fram í janúar þessa árs. Halldóra segir að hennar skilningur sé að ekki hafi orðið af launahækkuninni vegna mistaka, en til stendur að hækkunin taki þess í stað gildi 1. maí. 

Halldóra segir ekki rökrétt að laun þingmanna og ráðherra hækki úr þessu. 

„Það er ekki rétt núna þegar flestir í samfélaginu eru að taka á sig skerðingar að laun þingmanna og ráðherra hækki. Ég myndi vilja að þingmenn og ráðherrar yrðu teknir út fyrir sviga og þessar launahækkanir féllu niður. Í ljósi aðstæðna finnst mér að það eigi ekki að verða úr launahækkunum hjá þessum hópum út kjörtímabilið.“

Þingflokkur Pírata gaf í síðustu viku út yfirlýsingu þar sem lagt var til að launahækkun þingmanna og ráðherra frá 1. janúar félli niður. Þá segir þingflokkurinn rétt að fyrirhugaðar lögbundnar launahækkanir komi ekki til fyrr en að alþingiskosningum afloknum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert