Föst heima hjá sér í 30 daga

Svali ásamt eiginkonu sinni og þremur af börnum þeirra.
Svali ásamt eiginkonu sinni og þremur af börnum þeirra.

Sigvaldi Þórður Kaldalóns, betur þekktur sem Svali, er búsettur á Tenerife ásamt fjölskyldu sinni. Útgöngubann hefur þar verið í gildi í mánuð og enn er óvíst hvenær því verður aflétt. 

Svali segir í samtali við mbl.is að eina breytingin sem hafi orðið er að fleirum sé nú leyft að fara í vinnuna. Hingað til hafi aðeins heilbrigðisstarfsfólk og þeir sem starfa í matvörubúðum og lyfjaverslunum haft leyfi til að stunda vinnu, en nú geta fleiri stéttir eins og rafvirkjar og píparar einnig mætt til vinnu. 

„Þannig að aðeins fleiri fá að fara í vinnuna. Annars er allt ennþá stopp eins og hefur verið. Allt lokað,“ segir Svali. 

Áætlað er að fyrstu skref til að aflétta útgöngubanni og öðrum takmörkunum verði tekin á Tenerife 26. apríl. Svali segir líklegt að bannið verði framlengt á meginlandi Spánar, en hann vonast til að það verði ekki raunin á Tenerife.

„Þetta er orðið fínt bara, komnir 30 dagar lokuð í húsinu,“ segir hann. Svali segir fjölskylduna duglega að púsla, spjalla saman og stunda ýmsa hugarrækt. Það má þó ekki fara í göngutúra eða njóta annars konar útivistar. 

„Það má bara ekkert fara út á götu, það er bara algjört „lockdown“. Þú mátt fara í búðina með hanska og grímu en þú getur átt von á að vera stoppaður hvenær sem er. Þeir taka þetta helvíti föstum tökum.“

Óttast innbrotahrinu

Svali segir að yfirvöld óttist innbrotahrinu vegna ástandsins. „Þeir eru hræddir um að staðan sé orðin þannig að nú gæti farið í gang innbrotahrina því margrir eiga ekki nægan pening til að kaupa það sem vantar. Það er mikið af tómu húsnæði hérna sem ferðamenn væru í undir venjulegum kringumstæðum. En lögreglan er með aukavaktir og er mjög sýnileg.“

Svali segir óvíst hvernig sumarið verður á Tenerife, en þangað sækir mikill fjöldi ferðamanna árlega.

„Mér þykir afar ólíklegt að þeir opni í sumar. Alls staðar er talað um að mikill fjöldi fólks megi áfram ekki koma saman og þá er ekki hægt að opna vatnsrennibrautagarða, strendur og stór hótel. En ef það verður opið, sem mér þykir ólíklegt, verður mjög rólegt.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert