Hvaða „öðrum sýkingum“ er að fækka?

Hvaða sýkingar eru 1. viðkvæmnismál, 2. þess eðlis að þeim …
Hvaða sýkingar eru 1. viðkvæmnismál, 2. þess eðlis að þeim fækkar líklega þegar samkomubann er í gildi og 3. þannig að sóttvarnalæknir verður svona á svipinn þegar hann vísar til þeirra með sínum dularfulla hætti? Skjáskot/RÚV

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði frá því á blaðamannafundi í dag að „öðrum sýkingum“ en COVID-19 væri að fækka núna í samkomubanninu en um sinn er það túlkun hvers og eins undirorpið hvaða „aðrar sýkingar“ hann átti við.

Eftir að hann laumaði þessu að í svari við ótengdri spurningu brosti hann eilítið, en kvaðst ekki ætla að fara nánar út í málið að svo stöddu. Þegar hann var síðan aftur síðar spurður til hvers hann væri að vísa gerði hann ekki nema að ítreka að hann ætlaði ekki að upplýsa um hvaða sýkingar þetta væru. 

„Það kann að vera að þessar aðgerðir sem við höfum gripið til minnki almennt smit af öðrum toga í samfélaginu. Það eru aðrar öndunarfærasýkingar, aðrar veirusýkingar, kvefsýkingar í gangi, og það er ekki ólíklegt að þessar aðgerðir minnki almennt séð sýkingar, þó að það séu reyndar aðrar sýkingar sem ég ætla ekki að tala um hér sem hafa vaxið, en við ræðum um það síðar,“ sagði Þórólfur. 

Það voru mismæli, hann átti við að þessar „aðrar sýkingar“ væru að minnka en ekki vaxa, eins og hann leiðrétti þegar hann var inntur eftir meiri upplýsingum um þessar sýkingar.

Ekki fæst betur séð en að umræddar dularfullar sýkingar séu viðkvæmnismál af einhverjum ástæðum. Eftir situr spurningin um hvaða sýkingar eru bæði viðkvæmnismál og sérstaklega líklegar til þess að verða sjaldgæfari þegar samkomubann ræður ríkjum og starfsemi liggur niðri á mikilvægum sviðum, svo sem næturlífinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert