Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra fagnar árangri Íslendinga í baráttunni við kórónuveirufaraldurinn hingað til og segir að hann megi þakka þeirri leið sem hér var farin.
Sú leið er að sögn Svandísar frábrugðin stefnu samanburðarlandanna í sumu en lík í öðru. Hér var að sögn ráðherrans farið í harðar samfélagslegar sóttvarnaaðgerðir – einangranir, smitrakningar, fjöldatakmarkanir – en tiltölulega rólegar í umfangsmeiri pólitískar aðgerðir með almennari skírskotun á borð við landamæralokanir og slíkt.
Þó að samkvæmt nýju spálíkani háskólans verði dagleg ný smit á Íslandi í lok apríl á milli 0 og 1, segist Svandís ekki tilbúin að svara því á þessum tímapunkti hvort farið verði í að hjálpa öðrum ríkjum, eins og til dæmis Svíþjóð, með öndunarvélum eða öðrum búnaði þegar hans er ekki lengur þarfnast hér á landi. „Við erum ekki farin að velta slíku fyrir okkur enn þá en það er eitthvað sem við hljótum að skoða. Okkar glímu er ekki lokið og við vitum ekki hvernig henni reiðir af og á meðan byggjum við á þeim búnaði sem við erum með,“ segir Svandís.
Í dag voru kynntar afléttingar samskiptahamlana sem verða gerðar 4. maí og næsta „lota“ afléttinga verður því að líkindum um mánaðamótin maí/júní. Svandís segist ekki sjálf hafa fengið upplýsingar um nákvæmlega hvaða aðgerðum stendur til að aflétta þá, en segir ýmislegt hafa verið rætt; hvort líkamsræktarstöðvar fari aftur í gang, sundlaugar opni og hvort tala þeirri verði hækkuð sem mega koma saman hverju sinni; en að ekkert fast liggi fyrir um hvað af þessu gangi eftir í byrjun júní.
Auk álagsins sem hefur myndast á heilbrigðiskerfið eru grafalvarleg áhrif kórónuveirufaraldursins á efnahag landsins öllum ljós. Síðar í vikunni, fimmtudag eða föstudag, kynnir ríkisstjórnin nýjan aðgerðapakka til að stemma stigu við þeim áhrifum.
Pakkinn er ekki sá fyrsti og hann er „ekki sá síðasti“ heldur, að sögn Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra. Hún segir pakkann í senn fjárhagslegan og félagslegan, þar sem hann taki einnig til þess „hvernig við getum komið til móts við líðan fólks.“
Víðfeðmar aðgerðir verða kynntar til leiks í lok viku, meðal annars líklega einhvers konar endurskoðuð en framlengd mynd af hlutabótaleiðinni svonefndu (þar sem fyrirtæki geta lækkað starfshlutfall starfsmanna sinna niður í 25% en ríkið greiði þá 75% bætur á móti). Áður en þessi kostur er framlengdur, en hann er í boði út maí, segir Katrín að athuga þurfi hvort ástæða sé til að breyta honum að einhverju marki. Markmið stjórnvalda segir Katrín að sé afkoma launafólks, en ekki fyrirtækja.
Einnig er að sögn Katrínar verið að skoða ýmsar tillögur beintengdar andlegu heilbrigði fólks, tengdar aukinni áhættu á heimilisofbeldi og loks er hugað sérstaklega að sögn ráðherrans að hag stúdenta, sem sjá mjög margir fram á að vera atvinnulausir í sumar, og þó nokkrir óttast húsnæðisleysi.
Að sama skapi segir Katrín að sértækar leiðir þurfi til að styðja við einkarekna fjölmiðla. Þar sem þingstörfin séu í óvissu þurfi tímabundið beinar aðgerðir fyrir fjölmiðla, sem virðast, af orðum Katrínar að dæma, ætla að felast í beinum styrkjum eða endurgreiðslum úr ríkissjóði. Það er einnig undir lok viku sem vænta má tíðinda um þau mál.