Formenn stærstu stjórnarandstöðuflokka eru ósáttir við eigin aðkomu að tillögum um efnahagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar vegna kórónuveirufaraldursins.
„Við í Miðflokknum og í stjórnarandstöðunni allri höfum stutt allar þær tillögur sem ríkisstjórnin hefur komið með til að takast á við þennan vanda og við munum áfram styðja hverja einustu tillögu sem til úrbóta horfir.“ Þetta sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, á Alþingi í dag.
Á sama tíma hafi það valdið stjórnarandstöðunni verulegum vonbrigðum að stjórnarmeirihlutinn skyldi fella hverja einustu tillögu sem stjórnarandstaðan lagði til til að bæta það sem ríkisstjórnin hefði lagt fram, sem í sumum tilfellum hefði eingöngu verið ætlað að gera ráðherrum kleift að standa við það sem þeir hefðu boðað. „Maður skyldi ætla að ef mönnum er alvara um mikilvægi þess að standa saman þá hljóti sú samstaða að virka í báðar áttir,“ sagði Sigmundur.
Í sama streng tók Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar. Hann sagði stórtækari aðgerðir til lítilla fyrirtækja, heimila, atvinnulausra og námsmanna hafa beðið of lengi. Ljóst sé að ríkisstjórnin vilji halda spilunum þétt að sér og að hún telji aðkomu stjórnarandstöðunnar aðeins eiga að einskorðast við þinglega meðferð mála.