„Þessi tala — þetta er ekki heilög tala, þessi tvö þúsund, frekar en annað í afléttingu á samkomum. Þetta er tala sem eftir umræður, okkur þótti og mér þótti vera skynsamleg. Ég veit að öðrum finnst hún ekki skynsamleg en þannig er það.“
Þetta sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á upplýsingafundi almannavarna, spurður um minnisblað hans til heilbrigðisráðherra þar sem lagt er til að fjöldasamkomur hér á landi verði takmarkaðar við að hámarki 2.000 manns út ágústmánuð.
„Í minnisblaðinu er ekki talað um nákvæmlega hvenær það myndi taka gildi. Við töluðum um það að afléttingin myndi verða gerð í skrefum, með um það bil þriggja til fjögurra vikna millibili,“ sagði Þórólfur.
Benti hann á að ástæðan fyrir því að þessi tala hefði verið opinberuð, 2.000 manns, væri sú að stjórnvöld teldu það mikilvægt að upplýsa aðila í samfélaginu sem væru að skipuleggja viðburði.
„Að þeir fengju þá að vita, að minnsta kosti hvað ég væri að hugsa. Endanlega þarf ráðherrann að ákveða þetta.“
Sagðist hann að lokum telja að þessi breyting á samkomubanninu yrði auglýst „síðar í sumar“.
Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn var spurður hvenær neyðarstigi almannavarna yrði aflétt. Tók hann fram að á meðan strangar aðgerðir á borð við samkomubann væru virkar félli það að mati lögreglu innan þess að vera á neyðarstigi almannavarna.
„Þannig að ég á ekki von á að því verði aflétt fyrr en seinna í sumar.“