„Meira þarf ef duga skal“

„Auðvitað hefði maður viljað sjá hvenær mætti vænta tilkynninga um …
„Auðvitað hefði maður viljað sjá hvenær mætti vænta tilkynninga um næstu skref en á sama tíma þarf að virða það að það er ákveðinn ómöguleiki í að tilkynna það núna því það byggir á þróun veirunnar,“ segir Halldór. mbl.is/Hari

Tilslökun stjórnvalda á aðgerðum vegna útbreiðslu kórónuveiru leysir ekki vanda mjög stórs hluta atvinnulífsins. Heilt á litið er tilslökunin þó jákvætt skref í rétta átt fyrir atvinnulífið. Þetta segir Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. 

„Heilt á litið líst mér vel á þetta sem fyrsta skref. Það er ljóst að þau fyrirtæki sem hafa þurft að loka vegna tilmæla stjórnvalda geta í mörgum tilvikum opnað á nýjan leik og við fögnum því að sjálfsögðu.“

Eftirspurnin nánast gufað upp

Halldór bendir á að eftirspurn hafi horfið á sumum sviðum fyrirtækjareksturs.

„Það er ljóst að þetta leysir ekki vanda mjög stórs hluta atvinnulífsins enda sjáum við að eftirspurnin hefur nánast gufað í mörgum geirum atvinnulífsins.“

Betra væri ef ljóst lægi fyrir hver næstu skref í tilslökun verða, að sögn Halldórs.

„Auðvitað hefði maður viljað sjá hvenær mætti vænta tilkynninga um næstu skref en á sama tíma þarf að virða það að það er ákveðinn ómöguleiki í að tilkynna það núna því það byggir á þróun veirunnar. Þetta er gott skref í rétta átt en meira þarf ef duga skal.“

Mörg fyrirtæki algjörlega tekjulaus

Halldór segir mörg dæmi um fyrirtæki sem standi eftir algjörlega tekjulaus en reyni að viðhalda ráðningarsambandi við starfsfólk sitt með hlutabótum. Hlutabótaleið stjórnvalda rennur sitt skeið 1. júní næstkomandi og segir Halldór mikilvægt að hún verði framlengd. 

„Þetta er auðvitað ekki ákjósanleg staða. Sér í lagi þegar við það bætist óvissa um það hversu lengi þetta úrræði verður í boði. Staðan er flókin, mörg fyrirtæki eru alveg á taugunum en lykilatriði hér er að aðilar vinnumarkaðarins og stjórnvöld vinni sameiginlega að lausn á þeim áskorunum sem upp geta komið.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert