Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, fagnar í dag níræðisafmæli sínu. Guðmundur A. Þorvarðarson, eigandi blómabúðarinnar Barónessunnar á Barónsstíg, ákvað í tilefni af því að reisa sérstaka stöng með blómum henni til heiðurs á þessum merkisdegi.
„Ég geri þetta til heiðurs lifandi goðsagnar,“ segir Guðmundur og bætir við að Vigdís hafi markað djúp spor í heimssöguna og að nafn hennar muni lifa um ókomna tíð. „Ég man að þegar hún hætti þótti börnunum stórmerkilegt að karl gæti orðið forseti,“ segir Guðmundur en hann hefur þónokkrum sinnum séð um blómaskreytingar fyrir Vigdísi.
Stöngina prýða níutíu rósir og hvetur Guðmundur landsmenn til þess að koma við í dag og tína sér rós af stönginni svo þeir geti líka fagnað afmæli Vigdísar heima hjá sér. sgs@mbl.is