„Bannað að opna hurðina. Hér eru kommar! As everywhere.“
Þetta er efni A4-blaðs sem kom í ljós í framkvæmdum í kjallara Suðurgötu 39 á dögunum, þar sem Minjastofnun er nú til húsa. Lýst er eftir höfundum þessara áletrana en einhverja vísbendingu gefur sú staðreynd að löngu áður en Minjastofnun tók þó við húsinu voru þar bækistöðvar Sjálfstæðisflokksins.
Heimdellingar, semsé ungir sjálfstæðismenn í Reykjavík, höfðu um hríð aðstöðu í kjallaranum en Sjálfstæðisflokkurinn flutti út úr húsinu 1972 og það varð barnaheimili. Miðinn fannst á hurð sem hafði verið falin inni í vegg og út frá því áætla sérfræðingar Minjastofnunar (það eru hæg heimatökin) að veggurinn hafi verið reistur einmitt um það leyti sem Sjálfstæðismenn yfirgáfu húsið, enda hefðu þeir sem tóku við því að líkindum tekið miðann niður.
Að því er segir á vef Minjastofnunar var flokkurinn til húsa í byggingunni frá 1956. Minjastofnun telur líklegt að ráðsettur aðili í húsinu hafi skrifað „bannað að opna hurðina“ en að tveir Heimdellingar gætu hugsanlega átt heiðurinn að hugmyndafræðilegum viðbótunum. Þeir þrír einstaklingar sem virðast þannig hafa komið að miðanum hafa að líkindum átt leið um húsið rétt um það leyti sem flokkurinn flutti úr húsinu 1972, enda ólíklegt að miðinn hafi hangið þar árum saman, nema reyndar ef vera skyldi að boðskapurinn hafi átt mjög lífseigt erindi.