Vigdís Hauksdóttir, oddviti Miðflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur, hefur tekið ákvörðun um að snúa framvegis baki í Helgu Björgu Ragnarsdóttur, skrifstofustjóra á skrifstofu borgarstjóra, þegar þær sitja sömu fundi. Helga hefur ásakað Vigdísi um svo gróft einelti að hún hafi hlotið heilsutjón af. Vigdís segir slíkt fásinnu enda hafi hún einungis hitt Helgu nokkrum sinnum þegar bréf fóru að berast henni þess efnis.
„Þetta eru mótmæli mín gagnvart vinnubrögðum borgarstjóra og formanns borgarráðs og þeim sirkus sem er í gangi í ráðhúsinu,“ segir Vigdís um ákvörðun sína í samtali við mbl.is. RÚV greindi fyrst frá málinu.
Vigdís segir að sér beri skylda til þess að mæta á fundi borgarráðs en Helgu sé ekki skylt að mæta á fundina.
„Ég ákvað að þessi kona sem sakar mig um svo gróft einelti að hún hafi hlotið heilsutjón af þurfi ekki að horfa í augun á mér lengur. Mér ber skylda til að sitja fundi samkvæmt lögum, ekki henni.“
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður borgarráðs, sagði í samtali við RÚV að ekki væri til staðgengill fyrir umræddan skrifstofustjóra.
„Formaður borgarráðs setur hana á dagskrá þegar henni hentar. Það er algjört bull þegar Þórdís Lóa segir að þessi kona hafi ekki staðgengil. Embættismannakerfið leysir hvert annað af eins og tilefni gefa til,“ segir Vigdís.
Hún telur að borgarstjóri og formaður borgarráðs hafi tekið embættismann, þ.e.a.s. Helgu, fram yfir kjörinn fulltrúa, þ.e. Vigdísi.
„Embættismenn í ráðhúsinu eru undirmenn þeirra sem sitja í borgarráði sem hefur raunverulegt ráðningarvald yfir þeim sem eru ráðnir.“
Um tildrög málsins segir Vigdís:
„Ég hef fengið þrjú ábyrgðarbréf send á heimili mitt að kvöldi þar sem ég er sökuð um gróft einelti í garð þessarar konu sem ég kannast ekki við því þegar þessi bréf fóru að berast mér var ég búin að hitta þessa konu tvisvar, þrisvar á fundum. Miðað við öll eineltisfræði var það ekki einu sinni möguleiki fyrir mig að vera byrjuð á því að leggja þessa konu í einelti. Þegar ég fór að skoða bréfin þá kom það í ljós að hún hafði hlotið heilsutjón af. Þannig að ég ætla ekki að valda þessari konu meira heilsutjóni.“