Gunnlaugur Júlíusson, fyrrverandi sveitarstjóri Borgarbyggðar, hefur stefnt sveitarfélaginu og krefur það um 60 milljónir króna. Þetta kemur fram á vef RÚV.
Gunnlaugi var sagt upp störfum í nóvember síðastliðnum. Hann var kallaður til á fund og nokkrum klukkutímum seinna var honum gert að yfirgefa ráðhúsið.
Í byrjun mánaðar var stefna lögð fram í Héraðsdómi Vesturlands. Samkvæmt RÚV kemur fram í henni að Byggðarráð Borgarbyggðar telji ýtrustu kröfur Gunnlaugs umfram þær kröfur sem sveitarfélagið telji réttmætar.
Í samtali við Morgunblaðið í janúar kvaðst Gunnlaugur eiga inni einn og hálfan mánuð í óteknu orlofi, að minnsta kosti. Hann hefur krafist þess að fá það uppgert ásamt hækkun launa samkvæmt launaviðmiðun í ráðningarsamningi. Jafnframt hefur hann krafist bóta vegna þess hvernig staðið var að uppsögninni.