Það hlýtur að vera orðið ansi hart í ári hjá bílastæðasjóði fyrst að hann er farinn að sekta fólk fyrir að fullnýta innkeyrslur sínar, segir Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, í færslu á Facebook og gerir málefni sektar sem nágranni hans fékk fyrir að leggja fyrir framan eigin innkeyrslu að umtalsefni.
Breki skrifar í færslunni að stöðuvörður á vegum bílastæðasjóðs hafi sektað nágranna hans fyrir að leggja bílnum sínum fyrir framan eigin innkeyrslu í stað þess að leggja í almannabílastæði, sem séu af skornum skammti í Hlíðunum þar sem þeir búa. Bíllinn hafi ekki hindrað neinn, nema eigandann sjálfan.
Sá sem sektina fékk hafi haldið að um grín væri að ræða en eftir að hann hafði samband við bílastæðasjóð hafi honum verið gert ljóst að svo væri ekki.
Breki merkir bílastæðasjóð í færslunni og spyr hvort um sé að ræða stefnubreytingu hjá sjóðnum eða skammtíma kórónuveirutengdar aðgerðir vegna þess hversu lítið sé að gera í bílastæðahúsum eða á gjaldtökusvæðum.
Færslan hefur vakið mikla athygli og margir hafa sett athugasemd við hana. Blaðamaðurinn þjóðþekkti Jakob Bjarnar Grétarsson segir til að mynda að framganga bílastæðasjóðs bendi „því miður til ákveðinnar firringar gagnvart hlutverki fyrirbærisins. Sem er að liðka til fyrir umferð en ekki að líta á borgara sem einskonar bráð“.
Í samtali við mbl.is segir Breki að sér þyki framganga bílastæðasjóðs yfirgengileg. „Lög sem ganga gegn eigin tilgangi eru ólög. Í þessu tilviki var hann alls ekki fyrir, það voru tveir bílar í innkeyrslunni hjá nágranna mínum og þetta var þriðji bíllinn. Þetta hefur ekkert með aðgengi sjúkrabíla eða öryggi að gera, ekki neitt.“
Spurð út í málið segir Kolbrún Jónatansdóttir, framkvæmdastjóri bílastæðasjóðs, að hún þekki ekki þetta tiltekna tilvik og því sé erfitt að tjá sig um það. Það sé þó ljóst að lögum samkvæmt sé bannað að leggja í innkeyrslum og að bílastæðasjóður hafi fengið sektarheimildir um áramótin þegar umferðarlögin tóku breytingum.
„Innkeyrslur eru ekki bílastæði. Innkeyrslur eru eingöngu til þess að keyra að húsi eða bílskúr. Það er verið að byrja frekar rólega í þessu þannig að fólk hefur fengið, eftir því sem ég best veit, eitt tækifæri [áður en það er sektað].“
Hún segir að stöðubrot eins og þessi, þegar lagt er fyrir framan innkeyrslu, séu flokkuð sem hættubrot. Það sama gildi þegar lagt er við brunahana eða gegn öfugri akstursstefnu. Hún þvertekur fyrir að bílastæðasjóður sé orðinn að tekjuöflunarfyrirbæri eða að stofnunin hafi gleymt tilgangi sínum.
„Alls ekki. Það er okkar hlutverk að stöðva stöðubrot,“ segir hún.