364 einstaklingar á aldrinum 18-29 ára hafa greinst með kórónuveiruna, eða nærri 20 prósent þeirra sem greinst hafa með veiruna, hærra hlutfall en sem nemur hlutfalli þeirra af íbúafjölda. Á þessu vakti Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn athygli á blaðamannafundi almannavarna í dag „Þetta er ansi stór hópur sem hefur veikst og þið þurfið að passa ykkur betur,“ sagði Víðir.
Víðir sagðist engu að síður stoltur af því að vera hluti af samfélagi þar sem fólk ynni saman í baráttunni við veiruna. Hann ítrekaði að hálfur mánuður væri þar til tilslakanir á samkomubanninu tækju gildi, 4. maí.
Spurður sagði Víðir að engin sérstök viðmið hefðu verið sett um hvað þyrfti að gerast til að hætt yrði við að slaka á aðgerðum 4. maí.
Þá sagði hann aðspurður að tvísýnt væri hvort slaka mætti á samkomubanni á Vestfjörðum með sama hætti og annars staðar á landinu 4. maí. Það réðist meðal annars af sýnatöku Íslenskrar erfðagreiningar sem stóð yfir í gær og næstu tvo daga. Niðurstöður gærdagsins gefa tilefni til bjartsýni en aðeins tvö smit greindust í landshlutanum í gær.