Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, telur vel þess virði að athuga hvort tiltekinn fjölda undirskrifta landsmanna þyrfti til að hægt yrði að heimila þjóðaratkvæðagreiðslu um tiltekin lög. Þessi fjöldi gæti til dæmis verið um 10% þjóðarinnar. Í því fælist meiri festa og fyrirsjáanleiki. Þetta var meðal annars það sem forsetinn ræddi í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni fyrr í dag.
Guðni telur að forsetinn ætti samt sem áður að halda áfram að hafa heimild til þess að geta synjað lögum þótt engar undirskriftir væru. Ekki væri beinlínis hægt að þvinga forseta til að skrifa undir lög sem stríddu gegn hans sannfæringu.
Hann segir jafnframt mikilvægt að embætti forseta ætti ekki að vera alveg niðurnjörvað með of miklum reglum. Slík manneskja gæti ekki hreyft sig. „Það verður alltaf einhver núningur,“ segir Guðni og bætir við um embættið: „Við finnum aldrei neina formúlu um hvað hver á að gera.“ Hann sagði að embætti forseta héldi áfram að þróast.
Rætt var um ýmislegt í viðtalinu og var Guðni nú sem endranær óspar á hrósið til allra á þessum tímum eftir að kórónuveiran tók sér bólfestu í íslensku samfélagi. Það á jafnt við þríeykið og þjóðina.
Guðni segir að hver forseti hafi mótað embættið eftir eigin höfði en hafi til hliðsjónar lög og hefðir. „Það er enginn stærri en embættið sjálft,“ segir hann. Þótt embættið feli ekki í sér pólitískt vald þá fylgi því áhrifavald.
Spurður um áherslu sína í starfi segist hann vilja „kynnast sem flestum. Ég vil láta Íslendinga finna að öll eigum við rétt á mannlegri reisn. Allir eru jafnréttháir. Ég vil kynnast fólki hvar sem er, hvenær sem er. Kannski helst þeim sem á einhvern hátt standa höllum fæti í samfélaginu. Hjálpa þeim sem eru hjálparþurfi, hinir hjálpa sér sjálfir,“ segir hann.
Sem dæmi nefnir hann Downs-samfélagið sem hann hafi kynnst. „Ég hef kynnst þeim heimi aðeins og finnst heiður að geta stutt við það samfélag,“ segir Guðni. Hann hafi til að mynda látið taka myndir af sér í mislitum sokkum og finnur þakklæti fyrir vikið.
Hann segir mikilvægt að forseti hafi það hlutverk að stappa stálinu í þjóðina, sérstaklega þegar hún standi í ströngu eins og á þessum tímum. Finna það sem er sameiginlegt með þjóðinni frekar en sundrar og leggja áherslu á það. „Þetta embætti á að koma að gagni þegar við erum í sameiginlegri krísu,“ segir hann og bætir við: „Þetta áhrifavald á ekki að vanmeta.“
Spurður um forsetaframboðið í sumar fyrir komandi kosningar segist hann telja að nokkuð vel hafi gengið á þessum tæpu fjórum árum sem hann hefur setið. Hann hafi því ákveðið að tilkynna að hann ætli að bjóða sig aftur fram en slíkt gerði hann fyrir nokkrum mánuðum. Þjóðin ákveði svo framhaldið.
Það hafi komið honum og eiginkonu hans Elizu Reid ánægjulega á óvart hversu vel hafi gengið að laga fjölskyldulífið að embættisstörfum. Börnum þeirra hafi gengið vel að aðlagast, einkum í skólanum.
„Blessunarlega hefur þeim liðið ágætlega burtséð frá þessari breytingu,“ segir hann um börnin. Í skólanum hafi þau „alveg verið látin í friði. Ekkert gefið að svo sé um fólk í þeirri stöðu sem við finnum okkur í“, segir hann.
Hann hvatti þjóðina áfram til dáða. „Þetta er þungt högg og áfram er verk að vinna. Við höfum staðið okkur vel en verðum að halda áfram. Við þurfum að ljúka þessum átökum með fullnaðarsigri,“ segir Guðni.