Er ekkert að fara til Íslands

Hulda Ásgerður Guðmundsdóttir, hjúkrunarfræðingur í Arizona í Bandaríkjunum, er ekki …
Hulda Ásgerður Guðmundsdóttir, hjúkrunarfræðingur í Arizona í Bandaríkjunum, er ekki á leið til lands elds og ísa í bráð, enda yrði henni þá nauðugur einn sá kostur að hefja þá dvöl í tveggja vikna sóttkví. Hulda sagði mbl.is frá lífinu á sjúkrahúsi sínu í Phoenix í Arizona. Ljósmynd/Aðsend

„Ég er fastráðin og í fullri stöðu en fæ bara greitt fyrir þá tíma sem ég vinn. Þessar síðustu vikur hefur deildin mín verið lokuð að mestu og ég hef reynt að grípa tækifæri á öðrum deildum eftir því sem þau hafa gefist. En við erum mörg um hituna. Á hverri 12 tíma vakt þurfa um það bil 20 hjúkrunarfræðingar og 10 sjúkraliðar að sitja heima án launa,“ segir Hulda Ásgerður Guðmundsdóttir, hjúkrunarfræðingur í Phoenix í Arizona, sem ræddi við mbl.is í dag.

„Einungis helmingur sjúkrahússins er í notkun. Það er að miklum hluta til vegna þess að við fáum bara að framkvæma lífsnauðsynlegar aðgerðir, allt annað þarf að bíða þangað til Doug Ducey ríkisstjóri afléttir aðgerðabanni sem var sett á í lok mars. Ég er á launum en fæ að vinna um það bil einn þriðja til einn sjötta af því sem vaninn er,“ segir Hulda, sem starfar á HonorHealth-sjúkrahúsinu í Phoenix, en mbl.is heyrði frá Huldu og Halldóru móður hennar, fyrrverandi skólastjóra frá Vestmannaeyjum sem þá var gestkomandi hjá dóttur sinni og fjölskyldu, í mars.

„Fólk heldur sig bara heima hjá sér og er ekkert mikið að hittast,“ segir Hulda, spurð út í ástandið í Arizona en Bandaríkjamenn glíma nú við mörg þúsund dauðsföll af völdum kórónuveirunnar eftir að hafa, að margra yfirsýn, skellt skollaeyrunum við alvarleika faraldursins.

„Læknar og hjúkrunarfræðingar á spítalanum hjá mér eru meira og minna bara heima hjá sér og til dæmis hefur flestum skurðaðgerðum sem eru ekki lífsnauðsynlegar verið frestað. Þetta er ótrúlega sérstakt ástand. Hér er allt að fara á hausinn, þetta hefur alveg lamað samfélagið,“ segir Hulda frá. „Allir skólar eru lokaðir, það verða engar útskriftir fyrr en  í fyrsta lagi í haust sem er alveg nýr raunveruleiki,“ segir  hjúkrunarfræðingurinn sem sjálf á tvær dætur á grunnskólaaldri.

„Þetta hefur bara rotað allt samfélagið,“ segir Hulda, fólk með börn á grunnskólaaldri geti ekki bara hoppað í vinnu þegar börnin eru heima og ástandið í Bandaríkjunum og víðar sé þar með tvíeggjað sverð, atvinnuleysi annars vegar en hins vegar að neyðast til að vera heima og sinna ungviðinu.

Hvernig skyldi þá vinnudagur hjúkrunarfræðingsins vera?

„Ég veit það bara dag frá degi, vaktirnar breytast trekk í trekk og maður getur ekki skipulagt neitt, mér finnst það einna erfiðast. Auðvitað tek ég alla tíma sem eru í boði en það er mjög óþægilegt að hafa svona takmarkaðar upplýsingar, maður veit í raun aldrei neitt,“ segir Hulda.

„Við erum bara að eldast“

„Svo höfum við Johan [Ivarsson, sænskur eiginmaður Huldu] verið að vinna í því að gera erfðaskrá og getum núna bara rætt við lögmanninn gegnum síma. Það átti að gerast á mánudaginn en þá var ég kölluð í vinnu fyrirvaralaust,“ segir Hulda og hlær við.

Eru þau í erfðaskrárhugleiðingum vegna kórónufaraldursins þá?

„Nei nei, við erum bara að eldast,“ segir Hulda og hlær. „Við erum evrópsk og búum í Bandaríkjunum.“ Komi eitthvað hins vegar upp á vilji þau Johan hafa vaðið fyrir neðan sig. „Við viljum bara hafa hlutina á hreinu, við erum bæði langt að heiman og eigum börn, það er ekkert grín ef eitthvað kemur upp á hér og börnin okkar eru ekki með örugga lífæð,“ segir hún alvarleg í bragði.

Aftur að atvinnumálum, Bandaríkin eru ekki þekkt fyrir að styðja við bak launþega sem enda úti á guði og gaddinum. Hvað ef allt fer á versta veg?

„[Ríkisstjórnin] segist bæta allan launamissi vegna faraldursins, en ég sé nú ekki alveg hvernig það á að ganga upp,“ svarar Hulda. „Ég þarf að gefa upp í hverri viku hvað ég hef þénað mikið á sjúkrahúsinu og svo eiga bæturnar að koma til móts við það sem upp á vantar. Ég get nefnt þér sem dæmi að núna síðast fékk ég útborgað 15 prósent af því sem ég hef almennt fengið,“ útskýrir hjúkrunarfræðingurinn íslenski.

Félagsleg einangrun setur svip

„Arizona hefur ekkert farið illa út úr þessu þannig séð, hér voru ráðstafanir gerðar snemma, en þær hafa auðvitað líka leitt til þess að fólk er farið að bera skarðan hlut frá borði varðandi laun og atvinnu,“ segir hjúkrunarfræðingurinn íslenski.

Félagsleg einangrun er einnig farin að setja svip sinn á mannlífið í Arizona að sögn Huldu. „Enginn leyfir til dæmis stelpunum mínum að koma í heimsókn. Smit kom upp í fjölskyldu einnar vinkonu yngri stelpunnar og þau eru bara í sóttkví svo ég get ekki leyft dótturinni að fara þangað auðvitað,“ segir Hulda og játar að breytt heimsmynd taki sinn toll.

Takmarkað magn andlitsgríma

Varla er annað hægt en að spyrja út í stemmninguna á sjúkrahúsinu sem Hulda starfar á. „Þetta er mjög erfitt fyrir fólk fjárhagslega og það versta er kannski að vita ekkert um hve langvinnt þetta verður,“ svarar Hulda. „Við eigum mjög takmarkað magn af andlitsgrímum, N-95 eins og þær heita, þú ert bara með þinn maska allan daginn og svo þarftu að merkja hann með nafninu þínu og notar hann fimm daga í röð þótt hann sé dauðhreinsaður á hverjum degi. Samkvæmt framleiðanda á heilbrigðisstarfsfólk að nota einn maska per sjúkling,“ segir Hulda.

Hún kveður gæðastjórnun þó almennt mjög stífa á sjúkrahúsinu. „Det norske veritas [DNV, norskt staðlafyrirtæki] gerir úttektir hjá okkur. Vanalega myndu þeir spyrja hvern fjandann við værum að gera [varðandi grímunotkun] en nú er heimsfaraldur og aðstæður bara þannig að við getum í raun ekki annað en teflt því sem við höfum,“ svarar Hulda.

Hvað með framtíð Bandaríkjanna og kórónuveirunnar að mati Huldu?

„Kúrfan hérna virðist vera á niðurleið, greind smit eru ekkert svakalega mörg, maður er kannski að horfa á lok maí. Ég ætla ekki að líkja þessu við inflúensufaraldur, þetta er allt öðruvísi. Margir hér óttast sumarið þar sem þá fer fólk að nota loftkælingar og þá höfum við, alla vega hér í Arizona, séð aukningu á inflúensusmiti og það eru getgátur um að slíkt hið sama gæti gerst með Covid og hættan á endursmiti aukist,“ segir Hulda.

Ekki á heimleið

„Allir skólar eru lokaðir, það verða engar útskriftir. Stúdentsefnunum er boðið að útskrifast vefrænt eða koma aftur í haust í útskriftarathöfn ef það verður orðið leyft þá,“ segir hjúkrunarfræðingurinn sem sjálf á tvær dætur á grunnskólaaldri.

„Við erum ekkert að fara heim [til Íslands eða Svíþjóðar] á næstunni, við verðum bara hérna og gerum ekki neitt. Ég er ekkert að fara til Íslands, þá þyrfti ég bara að byrja í tveggja vikna sóttkví, það væri nú meira fríið,“ segir Hulda Ásgerður Guðmundsdóttir, hjúkrunarfræðingur í Arizona, hlæjandi og lýkur með því fróðlegu samtali.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert