Fjórir voru við bænastund í Hallgrímskirkju í hádeginu í gær, þar sem beðið var fyrir sjúkum, sorgmæddum, stjórnvöldum, náttúrunni og raunar mannlífinu öllu.
„Nú eftir páska eru sannkallaðir gleðidagar eins og upprisuboðskapurinn vitnar um,“ segir Sigurður Árni Þórðarson sóknarprestur. Þess er gætt að aldrei séu fleiri í kirkjunni á hverjum tíma en tuttugu manns og sitji dreift.
Hins vegar er betri tíð í vændum, því biskup Íslands hefur gefið út að hefja megi opið helgihald í kirkjum 17. maí. Ekki mega vera fleiri en 50 í húsi hverju sinni og ekki verða altarisgöngur eða annað sem kallar á nánd, svo sem handayfirlagning. Heimilt verður að ferma 1-2 börn við hverja athöfn, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.