Ógnaði starfsmönnum með dúkahníf

mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Einn drengjanna þriggja sem stálu bifreið á meðferðarheimilinu Lækjarbakka í Rangárvallasýslu í síðustu viku ógnaði starfsfólki heimilisins með dúkahníf til að komast yfir lykla að bílnum. Sömu drengir voru stöðvaðir á stolnu ökutæki fyrr í vetur og var þá notuð naglamotta til að stöðva för þeirra. Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á Suðurlandi.

Líkt og fram kom í frétt mbl.is á fimmtudag voru piltarnir handteknir í Þykkvabæ skömmu eftir miðnætti en lögreglan á Suðurlandi, sérsveit ríkislögreglustjóra og áhöfn þyrlu Landhelgisgæslunnar komu að leitinni að drengjunum. Í frétt um strok þeirra í febrúar kom fram að þeir eru fæddir 2003 og 2004 og því 15 og 16 ára gamlir. 

Þrjú mál komu upp í síðustu viku hjá lögreglunni á Suðurlandi þar sem ökumaður bifreiðar er grunaður um að aka undir áhrifum áfengis.  

„Í einu þeirra, þann 15. apríl, stálu ungir drengir bíl á meðferðarheimili í Rangárvallasýslu og fundust þeir og bíllinn í Þykkvabæ skömmu síðar. Einn þeirra hafði ógnað starfsfólki meðferðarheimilisins með dúkahníf til að komast yfir lykla að bílnum. Þessir sömu drengir voru stöðvaðir á stolnu ökutæki fyrr í vetur við Selfoss en þá var beitt naglamottu til stöðvunarinnar eftir að þeir höfðu virt að vettugi öll stöðvunarmerki lögreglu,“ segir í dagbók lögreglunnar.

Einn ökumaður sem lögregla hafði afskipti af þann 18. apríl er grunaður um að hafa ekið bifreið sinni undir áhrifum fíkniefna Sá var stöðvaður á Suðurlandsvegi vestan við Selfoss og er jafnframt grunaður um vörslu fíkniefna.

Sjö umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglunnar á Suðurlandi í vikunni sem leið. Í einu þeirra kvartaði ökumaður undan svima og fékk skoðun og aðhlynningu í sjúkrabíl vegna þess. Önnur eru samkvæmt tilkynningum án meiðsla.

27 voru í liðinni viku kærðir fyrir að aka of hratt á Suðurlandi. Einn þeirra mældist á 161 km/klst. hraða á Suðurlandsvegi við Laufskálavörðu og hlýtur viðeigandi sekt og sviptingu að launum. Annar íslenskur ökumaður mældist á 142 km/klst. hraða á Suðurlandsvegi við Dýralæk.   

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert