Yrði stórmál að færa fundi Alþingis

Steingrímur J. Sigfússon.
Steingrímur J. Sigfússon. mbl.is/Árni Sæberg

Að færa fundi Alþingis úr sal Alþingishússins annað, til að geta aukið bil milli þingmanna þannig að þeir gætu allir verið saman komnir, væri stórmál sem ólíklegt er að farið sé í og myndi kalla á langan undirbúningstíma. Þetta segir Steingrímur J. Sigfússon, forseti þingsins, en fyrir helgi kom upp ágreiningur milli Jóns Þórs Ólafssonar, þingmanns Pírata, og Steingríms varðandi störf þingsins þegar mál sem ekki tengdust Covid-19 faraldrinum höfðu verið sett á dagskrá þingsins. Sagði Jón Þór þingið brjóta sóttvarnalög og var fundi slitið í kjölfarið.

Eftir að hafa slitið fundinum sagði Steingrímur að hann gæti ekki afhent einum aðila dagskrárvald þingsins og boðið upp á innihaldslaust pex á tímum sem þessum. Sagðist hann hafa komið til móts við óskir stjórnarandstöðunnar með að halda fundinn og ætlaði ekki að sitja undir ásökunum um að stofna lífi og heilsu manna í hættu.

Jón Þór og Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmenn Pírata sökuðu síðar Steingrím um að ljúga og misnota aðstöðu sína.

Steingrímur segir í samtali við mbl.is að viðbragðsteymi Alþingis hafi fundað með almannavörnum síðan á fimmtudaginn og að stanslaust sé verið að fara yfir hvort eitthvað sé hægt að gera til að tryggja betur að öll mörk séu virt. Segir hann fimmtudaginn hafa verið einu undantekninguna þar sem það hafi ekki tekist og að jafnvel séu skiptar skoðanir um hvort fleiri en 20 manns hafi verið í salnum eða hvort þeir hafi verið í hliðarsölum og hvort telja eigi það með í 20 manna tölunni.

Mál ótengd faraldrinum af dagskrá

Klukkan þrjú í dag fundar Alþingi á ný og verður þar meðal annars óundirbúinn fyrirspurnartími sem ekki gafst færi á að taka fyrir á fimmtudaginn. „Þetta verður einfaldur fundur í dag, engar atkvæðagreiðslur,“ segir Steingrímur. Nú á tólfta tímanum verða svo fundir forseta með þingflokksformönnum og síðar í forsætisnefnd. Segir Steingrímur að þar verði skipulag fundarins rætt og hvort grípa þurfi til einhverra mögulegra innanhúsráðstafana.

Á þingfundinum í dag er aðeins á dagskrá óundirbúinn fyrirspurnartími, mál sem tengjast beint faraldrinum auk kosningar í stjórn Ríkisútvarpsins. Önnur mál sem tekist var á um fyrir helgi eru ekki lengur á dagskrá. Spurður hvort hann hafi þar með hlustað á röksemdir stjórnarandstæðinga segir Steingrímur að í dag séu ekki undir málefni sem ekki tengist faraldrinum og því eigi það ekki við. Þá segist hann gera ráð fyrir því að á næsta fundi verði komin önnur stór mál tengd faraldrinum sem þingið muni taka fyrir. Vísar hann þar til aðgerðapakka stjórnvalda, en önnur útgáfa hans verður líklegast kynnt nú í vikunni.

Þyrfti langan undirbúningstíma til að flytja þinghald

Spurður hvort komi til greina að flytja fund Alþingis annað þar sem rýmra væri um þingmenn og auðveldara að virða tveggja metra regluna segir Steingrímur að það yrði stórmál. Bæði stæðu eftir sömu takmarkanir varðandi fjölda í einum sal, þótt rýmra yrði um menn. Svo þyrfti að gæta að lögmæti funda, svo sem að öll tækni sé til staðar varðandi að taka upp, tímamæla og halda utan um atkvæðagreiðslur. „Það þyrfti all langan tíma til að undirbúa nýjan fundarstað,“ segir hann og bætir við að hann vonist til þess að eftir 4. maí, þegar til stendur að létta á samkomubanninu, einfaldist mál mikið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert