Tryggingastofnun (TR) hefur afgreitt til útgreiðslu leiðrétt réttindi þeirra dánarbúa ellilífeyrisþega sem eiga réttindi fyrir janúar og febrúar 2017 og ekki var búið að afgreiða.
Um er að ræða um 3.100 dánarbú þar sem réttindi auk vaxta nema alls um 450 milljónum króna. Stofnunin hefur þegar leiðrétt réttindi ellilífeyrisþega sem og réttindi þeirra dánarbúa þar sem maki situr í óskiptu búi.
Umrædda leiðréttingu má rekja til niðurstöðu dóms Landsréttar í máli nr. 466/2018. Þar var niðurstaðan sú að ekki var talið heimilt að láta greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum hafa áhrif á ellilífeyri til lækkunar í janúar og febrúar 2017.
Tryggingastofnun greiddi síðastliðið haust tæplega 29 þúsund einstaklingum í samræmi við dóm Landsréttar, alls um 5.500 milljónir, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þessi í Morgunblaðinu í dag.