Ísland er í fimmtánda sæti á lista yfir fjölmiðlafrelsi í ríkjum heim, samkvæmt nýjum matskvarða Blaðamanna án landamæra, The World Press Freedom Index, sem hefur verið birtur. Ísland fer niður um eitt sæti á milli ára en Ísland hefur færst niður um sjö sæti á listanum frá því árið 2012.
Noregur er í efsta sæti listans fjórða árið í röð og Finnland er í öðru sæti, Danmörk í þriðja og Svíþjóð er í fjórða. Þessi ríki falla í hóp þeirra landa þar sem staðan er sögð góð þegar kemur að frelsi fjölmiðla en Ísland fellur í flokk ríkja þar sem staðan er viðunandi.
Holland er í fimmta sæti listans og fer niður um eitt sæti en það er rakið til aukningar á ógnum á netinu (cyber-harassment). Litlar breytingar hafa orðið á þeim ríkjum sem skipa neðstu sæti listans. Norður-Kórea er í neðsta sæti listans, sæti 180, og hefur haft sætaskipti við Túrkmenistan sem nú er í 179 sæti. Erítrea er í 178 sæti.
Malasía, sem er í 101 sæti og Maldív-eyjar sem eru í 79 sæti eru hástökkvarar vísitölunnar í ár en Malasía hækkar um 22 sæti og Maldív-eyjar um 19. Er það rakið til breytinga á ríkisstjórnum í kosningum. Eins hækkaði Súdan um 16 sæti eftir að Omar al-Bashir fór frá völdum sem forseti landsins.
Samkvæmt umfjöllun Blaðamanna án landamæra um Ísland skýrist lækkun landsins undanfarin ár á listanum af „súrnandi“ samskiptum stjórnmálamanna og blaðamanna.