Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF), bindur vonir við að brugðist verði við þeim vanda sem ferðaþjónustan stendur frammi fyrir vegna kórónuveirufaraldursins í næsta aðgerðapakka stjórnvalda þar sem ekki hafi verið margt að finna sem snýr að ferðaþjónustunni í þeim aðgerðum sem kynntar voru í dag.
„Við höfum verið að tala fyrir því að það þurfi sérstakan aðgerðapakka fyrir ferðaþjónustuna. Okkar vonir standa til þess að hann komi í næsta pakka,“ segir Bjarnheiður í samtali við mbl.is.
Vandi ferðaþjónustufyrirtækja er lang stærstur allra fyrirtækja að mati Bjarnheiðar og furðar hún sig því á að ekki hafi verið komið til móts við þarfir ferðaþjónustunnar í pakkanum sem kynntur var í dag.
„Menn hafa kannski ekki gert sér grein fyrir því upphafi hversu gríðarlegt högg þetta er fyrir ferðaþjónustuna. Þegar þetta hófst allt saman vonuðust menn til að þetta yrði stutt, kannski fjórar til fimm vikur, en svo hefur staðan farið versnandi dag frá degi,“ segir hún.
Bjarnheiður að það eigi jafnvel eftir að skýrast betur hvað ferðaþjónustufyrirtæki geti nýtt sér nákvæmlega í þeim aðgerðum sem kynntar voru í dag. „Lán til lítilla fyrirtækja snerta lítinn hluta, ekki nema 15% af öllu viðskiptahagkerfinu, þannig að það er örlítill hluti ferðaþjónustufyrirtækja sem getur nýtt sér það.“
„Við höfum verið að vekja á því athygli undanfarna daga að það er þörf á sérstökum aðgerðum fyrir ferðaþjónustufyrirtæki sem önnur fyrirtæki þurfa alls ekki á að halda. Ferðaþjónustufyrirtækin eru í þeirri stöðu að um 80% þeirra eru eða munu stríða við 100% tekjufall á næstu mánuðum, það er enga innkomu, og eftir stendur allur fastur kostnaður, launakostnaður og annað.“
SAF heyra undir Samtök atvinnulífsins og hafa átt í samtali við stjórnvöld undir þeim hatti. „En við erum núna að setja meiri þunga á málefni ferðaþjónustunnar og við þurfum að sjá aðgerðir varðandi launakostnaðinn,“ segir Bjarnheiður og nefnir framlengingu hlutabótaleiðarinnar eða að starfshlutfall verði lækkað alveg niður í núll prósent. „Þannig að launþegar í ferðaþjónustu geti farið beint inn á atvinnuleysisskrá, við þurfum að losna við fasta kostnaðinn.“
Bjarnheiður segir fasta kostnaðinn þungamiðjuna í ferðaþjónustupakkanum sem samtökin vilja sjá frá stjórnvöldum. „Aðal þunginn í þessu er að það þurfi að skoða ferðaþjónustuna sérstaklega vegna þess að hún er að verða fyrir lang mestum áhrifum. Flestar aðrar greinar geta einhverja björg sér veitt en ferðaþjónustan getur það ekki nema að litlu leyti á innanlandsmarkaði.“
Þá spilar óvissan um hversu lengi ástandið varir stóran hluta að mati Bjarnheiðar. „Við vitum að það lítur illa út með þetta ár, við vitum ekkert hvernig þessar ferðatakmarkanir verða og við erum ekki bjartsýn. Þetta lítur illa út.“