„Já, vertu sæll vetur!“ Þannig hljómar upphaf kveðju Veðurstofu Íslands til veturs konungs sem yfirgefur okkur innan skamms. Líkt og flestir vita þá er sumardagurinn fyrsti á morgun og því segjum við loks skilið við þennan langa og erfiða vetur sem á síðustu metrunum virtist reyndar aldrei ætla að taka enda, með hverju hríðarskotinu á fætur öðru. En nú stefnir allt í að það birti til, hlýni og snjóa að leysi þar sem fólk hefur þurft að moka sig út úr húsum sínum vegna snjóþyngsla. Landsmenn hafa ekki farið varhluta af gulum, appelsínugulum og jafnvel rauðum viðvörunum Veðurstofu Íslands í vetur og á tímabili leið ekki sá dagur að spákortið væri ekki uppljómað í þessum skæru viðvörunarlitum sem betur hefðu sómt sér í blikkandi jólaseríu.
Það er því ekki úr vegi að kveðja veturinn með stæl og það gerir Veðurstofan að sjálfsögðu á Facebook-síðu sinni með viðvaranasinfóníu í rauðum dúr sem sýnir brot af því besta sem vetur konungur hafði upp á að bjóða. Við Íslendingar vitum þó að ekki skal hrósa happi of snemma þó sumardagurinn fyrsti gangi í garð, enda er það engin ávísun á veðursæld og sólríka daga. Veðurstofan biður veturinn þó að vera ekkert að hafa fyrir því að minna á sig, senda kannski í mesta lagi eitt skeyti.
„Auðvitað eru góðar minningar um ágætis samverustundir inn á milli, en okkur finnst þú hafa verð fullfrekur á athygli í þetta skipti og óskum við þess að þú hugsir þinn gang. Það er ekki endalaust hægt að vísa ábyrgðinni á aðra, loftslagsbreytingarnar eru orðnar þreyttar á því. Við vonum að þú njótir fjarverunnar. Það biðja allir að heilsa og sérstakar kveðjur færðu frá jarðhræringunum,“ segir meðal annars í færslunni með viðvaranasinfóníunni. Jarðhræringarnar hafa nefnilega ekki látið sitt eftir liggja og minnt stöðugt á sig á Reykjanesinu síðustu mánuði.
Sinfóníuna má sjá og njóta hér að neðan og rifja upp góðar minningar af vetrinum sem var frá upphafi staðráðinn í að vera eftirminnilegur.