Tveggja metra reglan, þ.e. að halda tveggja metra fjarlægð frá næsta manni, sem verið hefur í gildi frá því að kórónuveirufaraldurinn hófst, er komin til að vera, að minnsta kosti að því leyti að í öllum aðstæðum verði hægt að bjóða fólki upp á að halda tveggja metra fjarlægð frá öðrum kjósi það svo.
Þetta sagði Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, á upplýsingafundi vegna kórónuveirufaraldursins í dag.
Víðir svaraði spurningum um sumarið framundan, meðal annars með tilliti til viðburða eins og brúðkaupa, og mælti með því að fólk hefði, líkt og hann og Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefðu tileinkað sér í starfi sínu til fjölda ára, plan A, B, C og D.
Í kjölfarið tók Þórólfur til máls og sagði að samkvæmt minnisblaði hans til heilbrigðisráðherra væri lagt til, að óbreyttu, að í næsta skref í slökun samkomubanns yrði miðað við 100 manns. Vildi hann með þessu gefa fólki innsýn í hvað væri framundan.
Hvað ferðalög varðar sagði Víðir að starfsmenn sóttvarnalæknis væru að skrifa leiðbeiningar til þjónustuaðila í ferðaþjónustu um þrif og sóttvarnir til að hægt verði að halda uppi starfsemi, svo fólk geti ferðast innanlands í sumar.