„Við erum með það til skoðunar núna hversu vel hlutabótaleiðin er að gagnast og hvort það sé skynsamlegt að halda henni áfram. Hún er auðvitað tímabundið úrræði og þetta er svona lykilaðgerð sem gagnast mjög vel í dag með 33.000 einstaklinga inni í hlutabótaúrræðinu,“ segir Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, í samtali við mbl.is.
„Áður en langt um líður þurfum við að taka afstöðu til þess hvort úrræðinu beri að breyta eða hvort við eigum að aðlaga aðgerðir okkar að aðstæðum, til dæmis vegna fyrirtækja sem sjá ekki einu sinni fram á að geta greitt þennan fjórðungshlut launanna sem úrræðið gerir ráð fyrir í dag.“
Það kemur ekki til greina að endurskoða hlutastarfaleiðina þannig að fólk sem hefur verið fært í hlutastarf og ríkið greiðir hluta launa fyrir muni skila fullum vinnuafköstum til að auðvelda atvinnulífinu að komast af stað aftur, að sögn Bjarna.
„Það var eitt af prinsippatriðunum sem menn ákváðu að gera ekki.“
Aftur á móti gæti komið til álita að koma með einhverjum hætti til móts við fyrirtæki sem ráða ekki við að greiða uppsagnarfrest starfsfólks síns en fyrirtæki í ferðaþjónustu hafa sérstaklega látið vita af því að þau ráði ekki við að greiða uppsagnarfrest starfsfólks enda hafi þau ekki gert ráð fyrir því að þurfa að greiða uppsagnarfrest fjölda starfsfólks á meðan þau væru algjörlega tekjulaus.
„í þeim tilgangi að gera þeim kleift að standa að öðru leyti í skilum við alla sína lánadrottna og kröfuhafa. Þannig gætu fyrirtækin hægt á starfseminni, nánast bara lækkað í ofnunum og slökkt ljósin og bíða af sér mesta óveðrið. Það gæti verið mikilvæg aðgerð í þeim tilgangi en þetta er ekki búið að útfæra og við þurfum að nota tímann vel til að koma með svör við þessu.“