Guðmundur Franklín býður sig fram til embættis forseta Íslands

Guðmundur Franklín Jónsson, tekur slaginn gegn Guðna Th. Jóhannessyni.
Guðmundur Franklín Jónsson, tekur slaginn gegn Guðna Th. Jóhannessyni. Ljósmynd/Aðsend

Guðmundur Franklín Jónsson, viðskipta- og hagfræðingur, hefur ákveðið að gefa kost á sér í embætti forseta Íslands. Þetta kom fram í ræðu Guðmundar sem streymt var beint á Facebook-síðu hans.

Ætlar hann því að taka slaginn gegn sitjandi forseta, Guðna Th. Jóhannessyni, sem var kjörinn forseti Íslands 26. júní árið 2016 og varð í kjölfarið sjötti forseti lýðveldisins. Guðni hlaut 39,08 prósent atkvæða, eða 71.356 atkvæði.

Í ræðu sinni sagði Guðmundur Franklín að hann hafi margoft gagnrýnt aðgerðir stjórnvalda en það sé ekki nóg að gagnrýna heldur þurfi jafnframt að benda á aðrar lausnir. Hann hafi því sett saman tillögur að efnahagslegu aðgerðaáætlun sem hann telur að myndi gagnast þjóðinni til heilla og fleyta henni yfir erfiðasta hjallann.

Framboð hans mun í meginþáttum snúast um að efla forsetaembættið, nýta málskotsréttinn og berjast gegn spillingu. Guðmundur telur að forsetaembættið eigi ekki að vera til skrauts heldur eigi forseti Íslands að vinna með virkum hætti í þágu þjóðarinnar.

Eitt af þremur skrefum í aðgerðaáætluninni væri að nýta Landsvirkjun til að lækka raforkuverð til heimila, bænda og íslensk iðnaðar. Annað skref væri að taka verðtrygginguna úr sambandi á húsnæðislánum sem og vextina. Sömuleiðis að lengja í lánunum og frysta afborganir þeirra næstu 18 mánuði.

Hann heitir því, verði hann kjörinn forseti, að orkupakkar fjögur og fimm verði ekki samþykktir af honum heldur fái þjóðin að kjósa um þá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert