Alma Möller landlæknir varar fólk við inntöku sótthreinsiefna gegn covid-smiti, eins og klórs eða frostlegi. Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur verið harðlega gagnrýndur vestanhafs fyrir að velta slíku upp á blaðamannafundum.
„Því miður virðast hugmyndir sem byggja á vitleysu ná eyrum fólks. Þannig hefur því verið velt upp að inntaka sótthreinsandi efna, eins og klórs og ísóprópýlalkóhóls sem er frostlögur, geti virkað sem meðferð. Þetta getur verið stórhættulegt og við vörum sérstaklega við þessu,“ sagði Alma á upplýsingafundi almannavarna í dag.
Alma var spurð hvað henni þætti um að Trump skuli velta slíkum möguleikum upp fyrir alþjóð en hún sagðist ekki hafa heyrt það sérstaklega að hann hefði lagt þetta til. Henni fyndist einfaldlega almennt mjög óvarlegt að mæla með meðferð ekki hefur verið rannsökuð, sama hver ætti í hlut. „Og ég tala nú ekki um þegar hún getur verið skaðleg,“ sagði Alma.
Trump hefur ekki mælt með þessum aðferðum heldur reifaði hann möguleikana sem sótthreinsir eða sólarljós gætu falið í sér sem meðferð eða vörn gegn veirunni. Síðan hafa vísindamenn og andstæðingar forsetans bent á að hættulegt geti verið að velta slíku upp, þar sem inntaka þessara efna ber ekki aðeins lítinn árangur í baráttunni við veiruna heldur getur hún verið beinlínis hættuleg.
Fyrir utan þessi atriði um meðferð við sjúkdómnum ræddi Alma á fundinum þá nauðsyn sem nú ríkti um að koma málum í eðlilegt horf á sjúkrahúsunum. Álagið vegna faraldursins væri orðið viðunandi og því riði á að byrja á eðlilegri starfsemi á sjúkrahúsum, sem hefur að hluta legið niðri vegna faraldursins. 14 liggja á sjúkrahúsi vegna faraldursins og 5 á gjörgæslu. Virk smit eru 237, en þegar mest lét 5. apríl voru þau 1096.
Takmörkunum verður aflétt 4. maí á þjónustu sem felur í sér meiri nánd við sjúklinga en svo að tveggja metra fjarlægð geti verið haldið. Þar falla inn tannlækningar, sjúkraþjálfun, síður brýnni skurðaðgerðir, ífarandi rannsóknir (eins og speglun) og fleira. Nú er talað um að setja þurfi kraft í þessa þjónustu til að vinna upp biðlista.
Loks hvatti Alma fólk til að taka þátt í rannsókninni Líðan þjóðar á tímum Covid-19 , þar sem markmiðið er að afla þekkingar á áhrifum faraldursins á heilsu og líðan, til þess meðal annars að geta brugðist betur við í framtíð þegar eitthvað áþekkt kemur aftur upp.