Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði á upplýsingafundi almannavarna í dag að kórónuveirufaraldurinn væri „klárlega kominn niður.“ Örfá smit muni sjást á næstunni, þó að litlar hópsýkingar verði áfram mögulegar.
„Það má því segja að nú sé einum kafla lokið í okkar stríði við Covid-19 en stríðið í heild er samsett af nokkrum köflum. Við erum ekki komin í land,“ sagði sóttvarnalæknir.
Nýi kaflinn sem nú færi í hönd fælist í að koma í veg fyrir að faraldurinn blossaði aftur upp hér á landi og nú þyrfti því að fara mjög varlega næstu mánuði.
Þórólfur telur ekki líklegt að bóluefni sé á næsta leiti, enda þurfi að vinna gríðarmikið starf áður en hægt sé að bólusetja heilu samfélögin. „En ef bóluefni kemur loks fram er ljóst að enginn mun fagna því eins og ég,“ sagði sóttvarnalæknir.
Nú þegar veiran dalar hér á landi segir Þórólfur mikilvægt að fara af stað með að gera upp þau ógrynni gagna sem safnast hafa saman í baráttunni við faraldurinn.
„Það er mikið af upplýsingum og reynslu sem sem á eftir að gera upp og formalísera vel, því það mun gagnast í tengslum við aðra faraldra og ekki síður þennan ef hann blossar aftur upp,“ sagði Þórólfur. „Síðan held ég að það sem við höfum gert hér muni líka gagnast öðrum og því er mikilsvert að við förum nú í að deila reynslu okkar með þeim.“
Í þessu sambandi hefur Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra talað um að Ísland hljóti að skoða möguleikann á að flytja heilbrigðisbúnað út til annarra landa ef hans er ekki lengur þörf hér, en kannski mjög annars staðar.
Á síðasta sólarhring greindist aðeins eitt smit á Íslandi af 685 teknum. Það er langlægsta hlutfall greindra smita af teknum sýnum frá upphafi faraldursins. Í gær hafði ekkert smit greinst, en sú tölfræði bar veruleikanum ekki eins órækt vitni og tölfræðin í dag, þar sem sýnin í gær voru aðeins 193.
„Það er fallegur dagur í dag og vonandi er það fyrirboði góðra tíma,“ sagði Þórólfur og vísaði til veðurblíðunnar sem leikið hefur við landsmenn í dag. Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn mun fyrir sitt leyti að líkindum feginn að honum hafi valist þessi dagur til fyrsta frísins sem hann tekur frá daglegum upplýsingafundum almannavarna eftir 54 fundi í röð.
Eins og Þórólfur hefur áður vakið máls er fjöldi daglegra smita ekki lengur besti mælikvarðinn á framgang veirunnar. Virk smit eru nú 210 en voru 1096 þegar mest lét 5. apríl. Fjöldi þeirra sem hefur batnað er 1540. Ef fram fer sem horfir og þessi mjög öra rénun faraldursins heldur áfram hefur Þórólfur sagt að til greina komi að flýta einhverjum afléttingum, en hefur ekkert gefið upp um útfærslu slíkra ráðstafana.