Hóteleigendur kanna vígstöðuna

Gríðarleg fjárfesting hefur verið í hótelgeiranum á höfuðborgarsvæðinu á síðustu …
Gríðarleg fjárfesting hefur verið í hótelgeiranum á höfuðborgarsvæðinu á síðustu árum. mbl.is/Árni Sæberg

Reglur fjármunaréttar gætu haft áhrif á réttarstöðu hótela þegar kórónuveirufaraldrinum lýkur. Óviðráðanlegar hindranir, í þessu tilviki bann við komu ferðamanna til landsins, komi enda í veg fyrir að fyrirtækin geti efnt samninga.

Þetta má ráða af álitsgerð sem Viðar Már Matthíasson, fyrrverandi hæstaréttardómari og rannsóknarprófessor við lagadeild Háskóla Íslands, vann fyrir Fyrirtæki í hótel- og gistiþjónustu (FHG).

Viðar Már er einn helsti sérfræðingur landsins í kröfurétti.

Lögmaður FHG fór þess á leit við Viðar Má að hann athugaði réttarstöðu félagsmanna gagnvart viðsemjendum þeirra. Nánar tiltekið stöðu fyrirtækjanna vegna samninga um leigu á fasteignum og lánveitingum til rekstrarins með hliðsjón af aðstæðum vegna kórónuveirufaraldursins.

Milljarðar í húfi

Ljóst er að ferðabannið mun hafa langvinn áhrif á ferðaþjónustuna. Að sama skapi er ljóst að um milljarða króna gæti verið að tefla fyrir hótelin. Annars vegar hafa mörg þeirra fjárfest mikið síðustu misseri og hins vegar eru mörg leigutakar og hafa horft fram á tekjuhrun. Niðurstaða samninga við leigusala, eða lánardrottna, gæti því jafnvel ráðið úrslitum um eignarhald hótelanna þegar faraldrinum lýkur. Því er mikið í húfi.

Félagsmenn í FHG hafa ríflega 80% markaðshlutdeild á markaði sem telur tæplega 11 þúsund herbergi, samkvæmt áætlun Hagstofunnar.

Þótt álitsgerðin hafi verið unnin fyrir hóteleigendur gæti hún átt við fyrirtæki í öðrum greinum sem horft hafa fram á tekjuhrun vegna faraldursins og því ekki getað efnt samninga.

Grundvallarregla í kröfurétti

Viðar Már gerir grein fyrir þeim fjórum reglum íslensks og norræns fjármunaréttar sem hann telur að gætu haft áhrif á þær samningsskuldbindingar sem um ræðir. Niðurstaðan er studd dómafordæmum en tekið er fram að ástand sem þetta sé án fordæma.

Það hafi þýðingu fyrir beitingu þessara reglna að enginn hafi getað undirbúið aðgerðir eða búið í haginn til að takast á við það ferðabann, sem stjórnvöld settu á vegna faraldursins.

Þá sé það grundvallarregla í kröfurétti að skyldan til að efna peningagreiðslu sé rík. Í því efni séu meiri kröfur gerðar til þess að óviðráðanleg atvik, eða annars konar hindranir, hafi réttaráhrif en þegar um efndir á annars konar samningsskyldum er að ræða.

Umræddar fjórar reglur geti leyst aðila undan þeirri skyldu að efna samninga.

Útilokað að efna skyldur

Í fyrsta lagi svonefnd force majeure-regla en hún varðar ófyrirséð og óvænt ytri atvik sem koma í veg fyrir efndir. Það má ráða af skrifum Viðars Más að hann telji fyrirtæki í FHG geta borið regluna fyrir sig og með því forðast vanefndarúrræði leigusala og lánastofnana.

„Það má reyndar fullyrða að núverandi ástand, þar sem stjórnvöld á Íslandi og öðrum ríkjum hafa með ákvörðunum sínum komið í veg fyrir að erlendir ferðamenn komi til landsins, séu óviðráðanleg ytri atvik sem leiði til þess að útilokað sé fyrir fyrirtæki í FHG að efna skyldur sínar samkvæmt samningum... Niðurstaðan um þessa reglu er sú, að það kunni vel að vera að henni megi beita. Almennt ætti hún að eiga við. Óvissan liggur fyrst og fremst í því að ekki er unnt með almennum hætti að segja til um hver réttaráhrifin geta orðið, þ.e. í hve víðtækum mæli fyrirtæki í FGH gætu losnað undan vanefndaúrræðum viðsemjenda sinna,“ skrifar Viðar Már meðal annars.

Nánar er fjallað um þetta mál á síðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert