„Óþarfi að kóróna það með svona aðgerðum“

Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðismanna í Reykjavík.
Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðismanna í Reykjavík. mbl.is/Arnþór Birkisson

Eyþór Arnalds, oddviti borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, segir að hugmyndir Dags B. Eggertssonar borgarstjóra um hvort skoða eigi frekari götulokanir vegna faraldursins gætu komið niður á atvinnustarfsemi sem þegar eigi í miklum rekstrarvanda.

Dagur svaraði íbúa í Reykjavík í kvöld á Twitter, en sá sagði að pakkað hefði verið í miðbænum í dag og að tveggja metra reglan hafi verið virt að vettugi þar sem allar götur hafi verið opnar fyrir bílaumferð. Sagði hann göngugötur mikilvægari nú en nokkru sinni. Dagur tók vel í þessa hugmynd og ætlaði að athuga hjá Þórólfi Guðnasyni sóttvarnalækni og Víði Reynissyni yfirlögregluþjóni með þessa hugmynd.

Eyþór segir í samtali við mbl.is að á þessum tímum eigi að vera forgangsmál hjá borginni að vernda störfin og minnka þrengingar í borginni sem atvinnulífið hafi lent í en ekki að auka þær. Segir hann að það þurfi að styrkja verslun í borginni og að á þessum tímum sé fólk hvað varðast gegn veirunni í einkabíl. Segir hann að rekstrarumhverfi verslana hafi verið erfitt áður en faraldurinn skall á. „Það er óþarfi að kóróna það með svona aðgerðum,“ segir hann.

„Ég fæ ekki séð annað en að göturnar séu frekar tómar,“ segir Eyþór jafnframt og segir hann ekki viss um að fleiri göngugötur séu sú lausn sem íbúar kalli nú eftir.  Þá segir hann að sóttvarnalæknir hafi sent tilmæli til borgarinnar sem hafi verið fylgt og allt gengið mjög vel. „En ég tel að borgin eigi ekki að blanda sér í þau mál, heldur hafa rekstrarumhverfið í lagi,“ bætir hann við.

Á fundi almannavarna í dag kom meðal annars fram að þó nokkrar kvartanir hefðu borist vegna hlaupara, en stígar borgarinnar hafa verið nokkuð þétt skipaðir undanfarna daga með aukinni útiveru á tímum faraldursins. Spurður hvort hann teldi að í þeirri stöðu væri skynsamlegt að fjölga göngugötum segir Eyþór að það sé spurning um að fólk virði hvort annað á stígunum, en að frekara „hringl með umferðamálin“ leysi ekki þann vanda.

Hann segir breytingar sem þessar klárlega geta komið niður á atvinnustarfsemi, en tekur jafnframt fram að hann hafi ekki heyrt neinar útfærslur og ekki sé vitað hvort aðeins sé verið að horfa til gatna í miðborginni eða jafnvel fyrir utan hana. „Ég sé t.d. ekki gagnast að loka Ægissíðu eða Sæbraut þar sem mikið er um hjólandi og gangandi á stígum,“ segir Eyþór að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert