„Ríkisstjórnin hefur ekki leitað heimildar fyrir 350 milljónum til viðbótar hjá þinginu þannig að það er alveg ljóst að þá ætla þau að minnsta kosti að taka út þann styrk sem ætlaður var í frumvarpinu.“
Þetta segir Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, um samspil einskiptis 350 milljóna styrks til einkarekinna fjölmiðla annars vegar og hins vegar fjölmiðlafrumvarps, sem ætlað var að styrkja fjölmiðla um 400 milljónir króna.
„Þú eyðir ekki sömu peningunum tvisvar,“ bætir hún við.
Páll Magnússon, formaður allsherjar- og menntamálanefndar og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í samtali við mbl.is í gær að fjölmiðlafrumvarpið væri enn til meðferðar hjá nefndinni „með hliðsjón af þessum aðgerðum í tengslum við fjölmiðla sem eru lagðar fram í frumvarpi til fjáraukalaga sem nú liggur fyrir.“
Páll sagði þá að 350 milljóna króna styrkur ríkisstjórnarinnar til fjölmiðla vegna efnahagslegra áhrifa COVID-19 kæmi ekki til frádráttar þeim 400 milljóna króna styrk sem gert hefur verið ráð fyrir í fjölmiðlafrumvarpinu.
Milljónirnar 400 voru samþykktar í fjárlögum fyrir þetta ár en Helga Vala bendir á að hvergi sé gert ráð fyrir 350 milljóna styrk til einkarekinna fjölmiðla í fjáraukalagafrumvarpi.
„Formaður allsherjar- og menntamálanefndar hefur ekki beint talað fyrir afgreiðslu þessa frumvarps og inni í hans flokki er engin stemning fyrir fjölmiðlafrumvarpinu,“ segir Helga Vala.
Spurð hvort orð Páls, um að milljónirnar 350 komi ekki til frádráttar, bendi til þess að fjölmiðlafrumvarpið verði ekki tekið fyrir á Alþingi fyrr en seint og um síðir segir Helga Vala:
„Ég held að það séu litlar líkur á því að það verði afgreitt á þessu þingi en maður veit það aldrei. Ef það verður afgreitt í þessari mynd á þessu þingi þá þarf að setja 350 milljónir í fjáraukalögin. Þú úthlutar ekki 350 milljónum án þess að hafa fyrir því stöðu í lögum og þær eru ekki inni í fjáraukalagafrumvarpi.“
Helga Vala segir að frumvarpið þyrfti allra helst að fara í gegn á þessu þingi þar sem staða einkarekinna fjölmiðla sé slæm.
„Við í Samfylkingunni höfum verið mjög jákvæð fyrir þessu. Fjölmiðlar eru gríðarlega mikilvægir. Því miður er ekki mikill skilningur á því en það er lýðræðislega mjög mikilvægt að fjölmiðlar séu þess burðugir að geta starfað. Sömuleiðis eru fjölmiðlar mikilvægur liður í upplýsingagjöf, til þess að fræða fólkið í landinu svo við séum ekki bara að taka við einhverjum fréttum utan úr heimi.“
Spurð hvort styrkurinn sé ekki orðinn nokkuð hár á þessu ári ef bæði einskiptis styrkur ríkisstjórnarinnar vegna COVID-19 fer til fjölmiðla sem og styrkur fjölmiðlafrumvarpsins segir Helga:
„Ekki ef maður horfir á það sem er að gerast í kringum okkur. Ríkisstjórnir annarra landa virðast hafa verið að átta sig á því að rekstrargrundvöllur fjölmiðla er algjörlega hruninn þegar engar eru auglýsingarnar og hafa stutt sína fjölmiðla veglega.“
Helga segir að hérlendis virðist ekki vera sami vilji til að styðja við fjölmiðla.
„Þess vegna fagnaði maður því að það ætti loks að gera það og þess vegna greiddum við atkvæði með því í fyrra. Þess vegna finnst mér líka skrýtið að núna þegar það er algjört hrun í auglýsingatekjum hjá fjölmiðlum þá ætli þau að draga úr áður samþykktum stuðningi.“
Þar vísar Helga til þess að milljónirnar 350 sem nú eiga að fara til fjölmiðla séu 50 milljónum lægri en áður hafði verið samþykkt í fjárlögum þessa árs.