Frekari lokanir á götum fyrir bílaumferð, og þannig opnun fleiri göngugatna en vant er í borginni yfir sumartímann, munu styrkja rekstur verslana og veitingastaða en ekki koma niður á atvinnustarfsemi. Þetta segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri í samtali við mbl.is.
Í gær greindi mbl.is frá því að Dagur hygðist ræða opnun fleiri göngugatna við sóttvarnalækni og almannavarnir eftir helgi vegna mannmergðarinnar sem var í miðbænum í gær. Eyþór Arnalds, oddviti borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, sagði í kjölfarið að lokun gatna myndi koma niður á atvinnustarfsemi og fólk væri betur varið inni í einkabílnum en gangandi um götur.
Dagur bendir á að margar borgir erlendis hafi nú þegar gert tímabundnar breytingar með þessum hætti til þess að koma til móts við mannlífið og rekstraraðila. Hugsunin er sú að með frekari takmörkun bílaumferðar hafi gangandi vegfarendur betra tækifæri til að halda tveggja metra fjarlægð og veitingastaðir og verslanir hafi tök á að útvíkka starfsemi sína út á götur og gangstéttir og geti þannig gert viðskiptavinum sínum kleift að halda tveggja metra fjarlægð.
„Það er nánast geðheilbrigðismál og sjálfsagt lýðheilsumál að þetta sumar verði eitthvað það besta sem við munum eftir. Verkefnið sem er fram undan hjá okkur er að finna út úr því hvernig við getum átt frábært sumar en um leið virt sóttvarnareglur og hlýtt Víði,“ segir Dagur.
„Þetta snýr eiginlega ekki síður að því að koma til móts við rekstraraðila. Við erum til dæmis með fjöldann allan af litlum veitingastöðum sem gætu tvöfaldað sig með því að stækka sig út á gangstéttina fyrir utan, ekki bara við Laugaveginn heldur kannski líka annars staðar. Við viljum losa um regluverkin og reglurnar og gera breytingar sem búðir eða veitingastaðir vilja gera auðveldari en nokkurn tímann áður og leyfa mannlífinu að flæða um allt á sama tíma og við virðum sóttvarnarreglur.“
Dagur segir að borgin ætli sér ekki að ákveða götulokanir ein og sér heldur í samstarfi við rekstraraðila.
„Það sem við þurfum að standa saman um er að miðborgin verði spennandi og lifandi og það verði alltaf eitthvað nýtt og ferskt að gerast á hverjum degi þar. En auðvitað verðum við líka að tryggja þessar sóttvarnareglur og fylgja þeim.“
1. maí er næstkomandi föstudag og þá á sumarlokun fyrir bílaumferð í miðborginni að taka gildi. Spurður hvort hugmyndin sé að flýta þessari lokun eða fjölga göngugötum mikið segir Dagur:
„Í mínum huga snýst þetta ekki um einhverja eina götu eða einhverja eina lausn heldur að við notum þessa frjóu lausnamiðuðu hugsun sem hefur fylgt þessum sérkennilegu aðstæðum í vetur. Markmiðið er að vera svolítið skapandi í því hvernig við leysum á skemmtilegan hátt úr þessum hlutum sem í grunninn eru leiðinlegir svo við njótum þrátt fyrir allt sumarsins, útiverunnar og hvers annars, getum farið á kaffihús, veitingastaði og í verslanir.“
Vandræði hafa verið með göngugötur síðan Alþingi setti lög í vetur um það að allir sem hafa P-merki geti keyrt um göngugötur. Útfærslan á því er flókin og því hafa allir getað keyrt um göngugötur síðan lögin voru sett. Dagur segir að lögin hafi verið sett á án samtals við borgina og vinni borgaryfirvöld nú að lausn á málinu.