„Sameiginlegt verkefni alls mannkyns“

„Þetta er eiginlega sameiginlegt verkefni allra samfélaga og sameiginlegt verkefni …
„Þetta er eiginlega sameiginlegt verkefni allra samfélaga og sameiginlegt verkefni alls mannkyns,“ segir Víðir sem bætir við að við þurfum að vinna að þessu saman og passa að skilja engan útundan. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavörnum, segir mikilvægt að horft sé til þess sem á að gerast eftir að aðgerðum er aflétt 4. maí svo bakslag verði ekki í faraldrinum og smit taki sig upp aftur. 

Víðir leggur til samfélagssáttmála sem öll þjóðin verði saman í. Sá sáttmáli myndi þá gilda fram á sumarið og innihalda eitthvað sem við viljum öll halda í heiðri.

„Þar sem við værum að lofa því að sinna handþvotti vel, þrífa og sótthreinsa á okkur hendurnar, við værum að sótthreinsa og spritta snertifleti,“ segir Víðir. 

„Við ætluðum að vernda viðkvæma hópa, gefa fólki sem vill það kost á tveggja metra fjarlægðar, ef við fáum einkenni þá höldum við okkur heima og tölum við lækni.“

Allt uppi á borðinu

Þá ætti sáttmálinn að innihalda loforð um að sýni yrðu áfram tekin hjá þeim sem eru með einkenni þannig að allir sem eru veikir fari í einangrun og þeir sem verða útsettir fari í sóttkví.

„Við ætlum að veita áfram góða heilbrigðisþjónustu fyrir alla þá sem veikjast, miðla áfram öllum upplýsingum þannig að allt sé uppi á borði þannig að allir viti alltaf allt og nota fréttir frá traustu fréttamiðlunum sem eru ritstýrðir og sýna okkur rétta mynd af hlutunum og nota það í umræðunni, ekki eitthvað annað,“ segir Víðir.

Mikilvægt að enginn sé skilinn útundan

Hann bendir einnig á að Íslendingar þurfi að vera skilningsríkir gagnvart þeim sem misstíga sig því við munum öll misstíga okkur. Síðast en ekki síst vill Víðir að við séum góð við hvert annað.

„Þetta eru hugmyndir af samfélagslegum sáttmála sem ég held að sé mikilvægur þegar við förum að aflétta þessu smám saman og koma lífinu okkar í eðlilegra horf.“

Eina leiðin til þess að vinna þetta er að gera þetta saman, segir Víðir. Aðgerðir annarra þjóða munu einnig hafa áhrif. 

„Þetta er eiginlega sameiginlegt verkefni allra samfélaga og sameiginlegt verkefni alls mannkyns,“ segir Víðir sem bætir við að við þurfum að vinna að þessu saman og passa að skilja engan útundan.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Stöndum saman

Við hjá Árvakri viljum vekja athygli á því sem vel er gert á þessum erfiðu tímum. Ef þú ert með góða sögu af fyrirtækjum og einstaklingum sem eru að gera gott, sendu okkur ábendingu á netfangið stondumsaman@mbl.is.

Stöndum saman

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert