Góðan árangur megi rekja til almennings

Forsætisráðherra í viðtali við sjónvarpsstöðina France 24.
Forsætisráðherra í viðtali við sjónvarpsstöðina France 24. Skjáskot

Forsætisráðherra segir að góðan árangur Íslands í baráttunni við kórónuveirufaraldurinn megi rekja til almennings sem hafi sjálfur tekið ábyrgð á því að stemma stigu við útbreiðslu hans.

„Lögreglan er ekki úti á götu að tryggja að fólk fari eftir reglum, heldur gerir fólk það sjálft,“ sagði Katrín Jakobsdóttir í sjónvarpsviðtali við France 24 þegar hún var spurð hvort hún væri sammála því að kvenleiðtogar virtust standa sig betur en karlkyns kollegar þeirra.

Katrín sagði vel hægt að finna dæmi um karlkyns leiðtoga sem væru að standa sig vel í baráttunni gegn kórónuveirufaraldrinum, en að lykillinn væri að fylgja ráðum vísindamanna og taka gagnsæjar ákvarðanir.

Í viðtalinu ræddi Katrín almennt um góðan árangur Íslands, fjölda sýnataka, smitrakningu og afléttingu aðgerða.

Meðal þess sem fram kom í máli Katrínar var að til stæði að hefja víðtækar mótefnamælingar sem allra fyrst, vonandi í maí, og að ýmsir kostir fylgdu því að vera lítið samfélag búsett á eyju. Þá sagði hún enn margt sem ekki væri vitað um kórónuveiruna og að mikilvægt væri að halda varúðarráðstöfunum áfram, auk þess sem til greina kæmi að grípa aftur til hertra aðgerða, fari faraldurinn aftur af stað innanlands.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert