Aðgerðapakki stjórnvalda sem kynntur var í hádeginu hafði áhrif á útfærslu uppsagna hjá Icelandair sem taka gildi um mánaðamótin. Þetta segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, í samtali við mbl.is. Rúmlega 2.000 starfsmönnum var sagt upp í dag og ná uppsagnirnar til allra hópa innan félagsins, en mest þó á störf beintengd framleiðslu.
„Það er gríðarlega erfitt að standa í þessu en algjörlega nauðsynlegt. Við verðum að bregðast við þessu óvissuástandi, við vitum ekki lengur hversu lengi þetta mun vara, þessi tími sem við erum í mjög lítilli framleiðslu,“ segir Bogi.
Áhrif kórónuveirufaraldursins á Icelandair eru einna helst þau að aðeins 2-3% af upphaflegri flugáætlun er í gildi þessa dagana og tekjufall Icelandair nemur mun meira en 75% að sögn Boga, en það er viðmið stjórnvalda fyrir þau fyrirtæki sem geta sóst eftir stuðningi úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti. „Það lá alltaf fyrir að við yrðum að fara í uppsagnir, sama hvert útspil stjórnvalda yrði, en þetta hjálpar til í rekstrinum og sjóðsstreyminu hjá okkur,“ segir Bogi.
Þá mun Icelandair einnig halda áfram að nýta sér hlutabótaleiðina. „Það er algjör tekjubrestur hjá okkur. Óvissan er mikil en við verðum að vera tilbúin að setja allt í gang þegar eftirspurnin fer að taka við sér,“ segir Bogi og vonar hann að hægt verði að draga hluta uppsagnanna til baka áður en langt um líður.
Fram kom í Morgunblaðinu í dag að heimildarmenn innan þeirra sjóða sem mest eiga í Icelandair Group segjast opnir fyrir því að leggja flugfélaginu til nýtt hlutafé. Bogi segir að umræður við fjárfesta eru á algjöru byrjunarstigi og því ekki tímabært að tjá sig meira um það að sinni.
Hvað framtíðarhorfur Icelandair og ferðaþjónustunnar í heild sinn varðar kveðst Bogi vera bjartsýnn. „Ég tel að Ísland hafi mikil tækifæri þegar krísunni linnir, sem ferðamannaland.“ Hann segir Ísland verða áfram mikilvæga tengimiðstöð fyrir alþjóðaflugvelli milli Norður-Ameríku og Evrópu. „En við vitum ekkert hvenær við getum farið af stað en ég tel að tækifærin fyrir Ísland og Icelandair verði mikil í framhaldinu.“