„Covid bylting“ í skólahaldi

Hildur Ingvarsdóttir, skólameistari Tækniskólans.
Hildur Ingvarsdóttir, skólameistari Tækniskólans. Ljósmynd/Lögreglan

„Ég held að við verðum með öflugri framhaldsskóla vegna þess að við komum með mikilvæga hluti út úr þessu sem við getum tekið inn í áframhaldandi nám,“ sagði Hildur Ingvadóttir, skólameistari Tækniskólans sem ræddi um að „Covid bylting“ hefði orðið á skólahaldi hérlendis, á upplýsingafundi almannavarna í dag.

Þar átti hún við að tækni sem var til hefði nú loks verið nýtt og ýmsar umbætur orðið á skólastarfi sem voru nauðsynlegar á þessum fordæmalausu tímum. 

800 af 2.600 nemendum Tækniskólans snúa aftur í skólann eftir helgi en það eru þeir nemendur sem eiga eftir að ljúka verklegum hluta náms síns. Strax eftir páska var tekin ákvörðun hjá Tækniskólanum um að færa allt nám sem hægt væri í fjarnám en að sögn Hildar verður ýmislegt ekki gert við eldhúsborðið „Þar skortir yfirleitt rennibekki, málmsuðubása, gufupressur, vélsagir og fleira.“

800 nýjar stundaskrár

Útsjónarsemi og lausnamiðuð hugsun hefur verið í hávegum höfð til þess að nemendur gætu fengið að halda áfram í skólanum, að sögn Hildar. 800 nýjar stundarskrár hafa litið dagsins ljós og liggur 17 síðna Excel skjal að baki skipulagningu breytts skólastarfs. 

Hildur sagði á fundinum að nú finni starfsfólk og nemendur skólans vel hvað nærveran skipti miklu máli. Þorsteinn Hjartarson, sviðsstjóri fjölskyldusviðs hjá sveitarfélaginu Árborg, tók undir það. 

Þorsteinn Hjartarson, sviðsstjóri fjölskyldusviðs hjá sveitarfélaginu Árborg.
Þorsteinn Hjartarson, sviðsstjóri fjölskyldusviðs hjá sveitarfélaginu Árborg. Ljósmynd/Lögreglan

Erlendir nemendur og fatlaðir nemendur misst mikið úr

Hann sagði að helsti lærdómurinn af faraldrinum fyrir skólakerfið fælist í ákveðinni ró og yfirvegun í aðstæðum sem við höfum ekki staðið frammi fyrir áður. Þorsteinn sagði að nú væri skýrara en áður hvað leik- og grunnskólar skipti miklu máli fyrir samfélagið, börnin og foreldra þeirra. 

Því miður er aðeins misjafnt hvernig gengið hefur heima fyrir, að sögn Þorsteins, en allmargir nemendur af erlendum uppruna hafa til dæmis ekki fengið nægilega góða íslenskukennslu og fatlaðir nemendur hafa misst sérstaklega mikið úr skóla. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert