Icelandair stefnir að því að safna 29 milljörðum

Icelandair Group stefnir að því að safna rúmlega 29 milljörðum króna, eða 200 milljónum bandaríkjadala, í aukið hlutafé, með hlutafjárútboði í júní. Stjórn félagsins mun leggja tillögu þess efnis fyrir hluthafafund síðar í maí. Þetta kemur fram í tilkynningu sem félagið sendi í Kauphöll í kvöld.

Í tilkynningu frá Icelandair segir að hlutafjárútboðið sé mikilvægur liður í fjárhagslegri endurskipulagningu félagsins. Í tillögu stjórnarinnar er lagt til að gefin verði út allt að 30.000 milljón ný hlutabréf í félaginu. Skilmálar útboðsins, verð hluta og frekari kynning á fjárhagsáætlun félagsins verða kynnt á hluthafafundi.

Þá mun stjórn félagsins einnig óska eftir því að núverandi hluthafar gefi eftir forgangsrétt á nýútgefnum bréfum í félaginu. Útboðið verður þannig opið almenningi sem og fagfjárfestum. Stjórn mun taka ákvörðun um úthlutun hluta en leitast verður við að skerða ekki úthlutun til núverandi hluthafa og starfsmanna. Samhliða hlutafjárútboðinu mun Icelandair Group kanna möguleika á því að breyta skuldum í hlutafé.

Stjórnendur Icelandair Group hafa unnið náið með stjórnvöldum á liðnum vikum og tilkynnti ríkisstjórnin í dag að hún væri reiðubúin að kanna möguleikann á því að veita félaginu lánalínu eða ábyrgð lána, gangi áform félagsins um söfnun nýs hlutafjár eftir ásamt öðrum skilyrðum sem kunna að verða sett.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka