Hótar annarri búsáhaldabyltingu

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR. Haraldur Jónasson/Hari

Þótt orsök efnahagssamdráttarins nú sé fordæmalaus þá eru afleiðingarnar þekktar. Þar má læra af mistökum sem gerð voru í hruninu 2008. Þetta segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, í bréfi til félagsmanna í tilefni verkalýðsdagsins. Þar leggur hann fram tillögur að aðgerðaáætlun fyrir stjórnvöld með það fyrir augum að tryggja að aðgerðir stjórnvalda nái ekki eingöngu til fjármagnseigenda heldur einnig almennings.

Ragnar segir að verkalýðshreyfingin sé í samningsstöðu til að ná aðgerðum sínum fram. Telji stjórnvöld og atvinnulíf annað þá sé það misskilningur og nefnir Ragnar búsáhaldabyltinguna máli sínu til stuðnings. „Þar var fólkið skilið eftir og verkalýðshreyfingin sat með hendur í skauti á hliðarlínunni á meðan fólkinu var fórnað fyrir fjármálakerfið.“

Sú breyting hafi þó orðið frá því í hruni að verkalýðshreyfingin sitji ekki lengur á hliðarlínunni með hendur í skauti. Þess í stað sé hún að vígbúast. „Og ef stjórnvöld vilja aðra búsáhaldarbyltingu þá verður hún með þátttöku verkalýðshreyfingarinnar sem bakland. Það mun ekki standa á okkur.“

Aðgerðirnar sem Ragnar leggur til skiptast í varnar- og sóknaraðgerðir:

Vörnin

  • Að öllum markmiðum Lífskjarasamningsins verði náð fyrir haustið.
  • Seðlabankinn noti sinn forða til að halda genginu stöðugu með gjaldeyrisforða eða höftum. Opið og upplýst almenningi hverjir eru að kaupa og selja gjaldeyri á Íslandi.
  • Frysta verði vísitölu neysluverðs til verðtryggingar á lánum og leigusamningum þannig að eignir landsmanna og kaupmáttur brenni ekki upp.
  • Að tekin verði ákveðin skref í að afnema verðtryggingu neytendalána.
  • Að fjármálafyrirtæki og stofnanir skili vaxtalækkunum og lækkun á bankaskatti til neytenda.
  • Beinar greiðslur í gegnum barnabótakerfið og húsnæðisstuðningur verði aukinn.
  • Hækka greiðslur til lífeyrisþega og lækka skerðingar.
  • Að fasteignagjöld, leikskólagjöld og fæðiskostnaður skólabarna verði felld niður hjá foreldrum barna sem eru atvinnulausir að hluta eða öllu leyti.
  • Tekjutengdar atvinnuleysisbætur verði hækkaðar og möguleiki að vera á þeim í 6 mánuði eða lengur og viðmiðunartímabil varðandi tekjur verði útvíkkað.
  • Stórauka þjónustu og stuðning við atvinnuleitendur í mennta- og fræðslumálum og sálgæslu.
  • Allur stuðningur hins opinbera við fyrirtæki verði þeim kvöðum háð að þau vinni ekki gegn samfélagslegum gildum og hagsmunum almennings.

Sóknin

  • Hlutdeildarlánum verði komið á sem fyrst til að styðja við fyrstu kaupendur og jaðarsetta hópa á húsnæðismarkaði með stórfelldri uppbyggingu á hagkvæmu húsnæði.
  • Aukin verði stofnframlög í almenna íbúðakerfið.
  • Opnað fyrir inngöngu í framhalds- og háskóla og á lánamöguleika og styrki í gegnum LÍN og verðtrygging námslána verði felld niður eða þeim breytt í styrk.
  • Stórauka og flýta innviðauppbyggingu sem ríkið þarf hvort sem er að standa undir svo sem á aðstöðu við náttúruperlur á stígum og vegakerfi.
  • „Allir vinna" átakið verði útvíkkað enn frekar.
  • Fyrirtækjalýðræði verði komið á með lögum þar sem starfsfólki er tryggt sæti í stjórnum fyrirtækja.
  • Heildarendurskoðun á skattkerfinu með aukinn jöfnuð að leiðarljósi.
  • Starfsmönnum fyrirtækja verði boðið að taka þau yfir fari þau í þrot.
  • Efla eftirlit með skattaundanskotum og færslu fjármuna til aflandseyja og að fjármunir úr skattaskjólum verði ekki gjaldgengir í íslensku hagkerfi.
  • Endurskoðun á auðlindastefnu þjóðarinnar og tryggja eignarhald almennings til framtíðar.
  • Hefja vinnu við endurskoðun á lífeyris- og almannatryggingakerfinu og hefja umræðu um óskerta framfærslu.
  • Þjóðarátak í nýsköpun með áherslu, hagsmuni og velferð launafólks og umhverfismál að leiðarljósi.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert