Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, segir ástæðu til að hafa sérstakar áhyggjur af kórónuveirufaraldrinum í þeim samfélögum sem leggja mest upp úr einstaklingshyggju. Þetta sagði hann á blaðamannafundi almannavarna í dag.
Páll vísaði í umfjöllun læknatímaritsins The Lancet um einkenni þeirra samfélaga sem best hefði tekist að hafa hemil á faraldrinum. Öflugt velferðarkerfi væri ekki síður mikilvægt en stuðningur fjölskyldu og vina, sagði hann. „Sérgæska og fókus á þröngan eigin hag skilar fólki bara ofan í gröfina,“ sagði Páll sem sagðist telja að faraldurinn myndi sýna nauðsyn þess að byggja upp heilbrigðiskerfi næstu árin.
Þá gerði Páll, sem er doktor í geðlækningum, hugtakið þolgæði (e. resilience) að umtalsefni sínu. „Ég held að það sé mikilvægt að við ræktum með okkur þann eiginleika að gefa hlutum sinn tíma til að ná árangri, á næstu mánuðum.“ Það sem einkenni hinn þolgóða sé hæfileikinn til að muna markmiðið sem stefnt er að, að missa ekki sjónar á því og láta ekki áföll brjóta sig heldur gefa eftir, bogna – en koma svo til baka og halda áfram ótrauður.