„Síminn hefur ekki stoppað“

Við tökur á sjónvarpsþáttaröðinni Broti, sem sýnd var á RÚV …
Við tökur á sjónvarpsþáttaröðinni Broti, sem sýnd var á RÚV og Netflix. Erlend kvikmyndaver sýna Íslandi áhuga um þessar mundir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bandaríska dagblaðið Los Angeles Times fjallar í grein í gær um áhuga kvikmyndavera í Hollywood á Íslandi sem tökustað á tímum kórónuveirunnar. Kvikmyndaframleiðsla hefur að mestu legið niðri síðustu vikur vegna faraldursins, en nú sjá framleiðendur vonarglætu í löndum þar sem tekist hefur að halda faraldrinum í skefjum. Greindi Ted Sarandos, dagskrárstjóri streymisveitunnar Netflix, til að mynda frá því á dögunum að fyrirtækið væri við tökur á Íslandi og í Suður-Kóreu.

Í grein LA Times er rætt við Einar Hansen Tómasson, verkefnastjóra hjá Íslandsstofu (eða Iceland's film commissioner, eins og hann kallar sig á ensku). Hann segir að í kjölfar yfirlýsingar Sarandos á miðvikudag hafi síminn ekki stoppað, og skilaboð borist frá framleiðendum og kvikmyndaverum í Los Angeles, New York og víðsvegar úr Evrópu. „Þau eru að reyna að kortleggja ólíka staði til að vita hverjir eru öryggir, og hvert þau geta haldið fyrst með möguleg verkefni,“ segir Einar. 

Farið er yfir kosti Íslands sem tökustaðar í greininni: strjálbýlt land þar sem sýnataka vegna veirunnar hefur verið í fremstu röð, auk mikilfenglegrar náttúru sem hefur fengið að njóta sín í þáttum og myndum á borð við Game of Thrones, Prómóþeusi og kvikmyndinni um þrumuguðinn Þór.

Einar segist hafa kynnt fyrir ríkisstjórninni tillögur um hvernig nýta stöðuna nú til að laða að framleiðslufyrirtæki. Þannig gæti erlent tökulið tekið að láni leifuflug og haldið á sérstakt hótel til sýnatöku. Séu niðurstöður neikvæðar væri tökuliðinu heimilt að halda á afskekkta tökustaði í fylgd heilbrigðisstarfsfólks.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert