„Ég mátti til með að kíkja þarna inn, fyrst ég var á ferðinni fyrir norðan, og sem hendi væri veifað var mér kippt marga áratugi aftur í tímann. Þrátt fyrir að vera löngu hætt að þjóna sínum tilgangi hefur þessi verksmiðja ennþá sinn sjarma. Gamli tankurinn er til dæmis ótrúlega skemmtilegt mótíf, bæði að innan og utan. Mynstrið í steypunni er eins og listaverk,“ segir Árni Sæberg, ljósmyndari Morgunblaðsins, sem tók myndirnar sem hér getur að líta í gömlu síldarverksmiðjunni á Hjalteyri.
Árni segir það hafa verið undarlegt að aka Eyjafjörðinn á dögunum; varla hafi verið nokkurn mann að sjá og enga túrista, sem alla jafna fylla fjöll og hreppi á þessum tíma árs.
„Ég mætti einum manni á hjóli. Þetta var bara eins og þegar maður var strákur í sveit fyrir fimmtíu árum. Nú er um að gera fyrir Íslendinga að nýta tækifærið í sumar og njóta þessarar perlu sem við eigum, sem er landið okkar.“
Löng hefð er fyrir síldarvinnslu á Hjalteyri. Norðmenn hófu síldarsöltun um 1880, Svíar, Þjóðverjar og Skotar bættust í hópinn og upp byggðist sjávarpláss með mörgum þorsk- og síldveiðiskipum. Þegar fyrri heimsstyrjöldin braust út 1914 hurfu útlendingarnir á brott og Thor Jensen athafnamaður, sem tekið hafði Hjalteyri á leigu ári áður, byggði upp síldarvinnslu.
Árið 1937 var byggð stór síldarverksmiðja við Hjalteyri, sú stærsta í Evrópu á þeim tíma samkvæmt sumum heimildum. Eftir því sem leið á 20. öldina dró úr umsvifum Thorsaranna og eftir að síldarbresturinn varð á sjöunda áratugnum var síldarverksmiðjunni lokað 1966.
Nánar er fjallað um síldarverksmiðjuna á Hjalteyri í máli og myndum í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.