Innan við tvö þúsund hafa látist af völdum kórónuveirunnar í Afríku og staðfest smit eru um 38 þúsund talsins. Þetta er ekki há tala fyrir heimsálfu sem telur rúmlega 1,2 milljarða íbúa en á sama tíma er fæðuöryggi tugi milljóna íbúa álfunnar ótryggt. Sérfræðingar telja að mun fleiri eigi eftir að deyja og sýkjast af völdum COVID-19 í Afríku en enginn veit hvort þau dauðsföll eða veikindi verða nokkurn tíma skráð á kórónuveiruna.
Magna Björk Ólafsdóttir, sem er hjúkrunarfræðingur og hefur starfað víða um heim fyrir Rauða krossinn, þekkir vel til fátækari ríkja Afríku þar sem hún var hjúkrunarfræðingur þar m.a. þegar ebólufaraldurinn geisaði í vesturhluta álfunnar 2014 og nú síðast við þjálfun teyma í smitvörnum, greftrunum og viðbrögðum vegna ebólu í Úganda 2019 . Hún segir mikilvægt að ríki auki við neyðar-og þróunaraðstoð sína nú á tímum COVID-19 í stað þess að draga úr henni. Ef það er ekki gert geta langtímaafleiðingarnar vegna áhrifa COVID orðið skelfilegar.
Magna starfar hjá Alþjóðasambandi Rauða krossins (IFRC) í Genf en líkt og svo margir aðrir er hún á Íslandi núna vegna kórónuveirunnar. Um leið og opnað verður fyrir ferðalög fer hún til Genfar en þar starfar hún sem heilbrigðisfulltrúi í viðbrögðum við COVID-19 á heilbrigðissviði IFRC.
Magna, sem er afar reyndur bráðahjúkrunarfræðingur, hefur starfað víða fyrir Rauða krossinn. Hún hefur meðal annars verið sendifulltrúi fyrir Rauða krossinn á Haítí, Filippseyjum, Írak, Kenýa, Suður-Súdan, Bangladess,Síerra Leóne og Úganda.
Magna segir að mikil óvissa ríki varðandi stöðu mála í ríkjum Afríku í dag. Ríkin eru mörg og misvel í stakk búin til að takast á við faraldurinn. Samkvæmt opinberum tölum eru dauðsföllin rúmlega 1.700 talsins í álfunni og staðfest smit tæplega 38 þúsund talsins.
„Ég óttast að tölurnar séu ekki að gefa rétta mynd af útbreiðslunni ef tekin eru viðmið af öðrum faröldrum sem hafa geisað í Afríku, svo sem ebólunni sem er nærtækasta dæmið,“ segir Magna.
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) samþykkti fyrr í vikunni að veita Malí og Eþíópíu hundruð milljóna Bandaríkjadala lán sem verður nýtt í baráttunni við kórónuveirufaraldurinn. Sjóðurinn hefur að undanförnu aukið við lánveitingar sínar til fátækari ríkja vegna COVID-19.
AGS spáir því að verg landsframleiðsla ríkja í Afríku eigi eftir að dragast saman um 1,6% í ár og ef þetta verður að veruleika er staðan verri en hún hefur verið nokkru sinni fyrr. Á sama tíma varar Alþjóðabankinn við því að hætta sé á fyrstu alvarlegu efnahagslægðinni í Afríku í aldarfjórðung.
Josep Borrell, sem fer með utanríkismál hjá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, segir að ESB muni veita aukið fé til viðkvæmra svæða en tiltók ekki hvaða ríki fengju aukið fjármagn. Á undanförnum mánuðum hefur fæðuóöryggi aukist gríðarlega í austurhluta Afríku og óttast Sameinuðu þjóðirnar að ástandið eigi eftir að versna til muna næstu mánuði.
Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna (WFP) áætlar að um 20 milljónir íbúa í níu ríkjum Afríku hafi ekki öruggt aðgengi að fæðu. Löndin eru: Búrúndí, Djibútí, Eþíópía, Erítrea, Kenýa, Rúanda, Sómalía, Suður-Súdan og Úganda. Í þessum ríkjum eru fá staðfest tilfelli COVID-19 en það kemur sérfræðingum ekki á óvart eða eins og Magna segir þá búa margir í ríkjum eins og Síerra Leone, Suður-Súdan, Sómalía og Kongó (lýðstjórnarlýðveldið) við sára fátækt þar sem grunninnviðir eins og heilbrigðisþjónusta eru gjarnan veikir eða óaðgengilegir.
„Í mörgum ríkjum Afríku býr fólk við þröngan kost eins og t.d. í flóttamannabúðum og það eru svo margir þættir sem vekja hjá manni ugg. Til að mynda rakning smita, einangrun smitaðra og sóttkví? Það er hugsanlega ekki möguleiki á slíku sums staðar. Er verið að ná til fólksins? Fólks sem býr þröngt og jafnvel úr alfaraleið þannig að það er erfitt að miðla upplýsingum til þeirra, síma-og netsamband er ekki tryggt,“ segir Magna.
Hún bætir við að á sama tíma eru mörg lönd Afríku mun betur undirbúin undir að bregðast við faraldri nú en þau voru árið 2014 þegar ebólu-faraldurinn blossaði upp. En þrátt fyrir það voru fæstar þjóðir heims undirbúnar fyrir heimsfaraldur af þessari stærðargráðu.
Talskona WFP, Elisabeth Byrs, segir að talan 20 milljónir sé staðan í dag en búast megi við að talan eigi eftir að hækka verulega næstu þrjá mánuði. Fara upp í 34-43 milljónir vegna félagshagfræðilegra áhrifa COVID-19.
Versta hugsanlega sviðsmyndin er sú að fæðuóöryggi eigi eftir að tvöfaldast og af þeim muni helmingur verða við hungurmörk. Byrs segir að á næstu þremur til sex mánuðum þurfi WFP á aukafjármagni að halda, hið minnsta 500 milljónir Bandaríkjadala, til að veita nauðsynlega aðstoð á Horni Afríku og víðar í austurhluta álfunnar.
Á sama tíma og heimsfaraldur geisar er það ekki bara skortur á matvælum vegna þurrka og uppskerubrests vegna engisprettufaraldurs, efnahagsþrenginga og annarra faraldra og heilbrigðisógna heldur fer þetta allt saman á sama tíma og er maður hræddur við að þróunaraðstoð dragist saman til þessara landa, segir Magna.
„Því miður óttast ég það á sama tíma og fyrri hörmungar sýna okkur að eftirköstin vara svo lengi, til að mynda efnahagslega svo ekki sé minnst á heilsu fólks. Nú á tímum COVID er þarfara að styðja við Afríku en nokkru sinni fyrr. Ef aðstoðin minnkar er hætta á að áhrifCOVID verði enn meiri en annars væri, vari mun lengur og hafi víðtæk áhrif. Áhrif COVID á Afríku munum við líklega ekki sjá fyrr en eftir einhver ár en nú þegar eru þau farin að hafa áhrif á t.d. bólusetningar og viðbrögð við öðrum neyðum og faröldrum því það þarf allar hendur á dekk vegna COVID líkt og í öðrum löndum. Það er rétt hægt að ímyndað sér afleiðingar þess!“ segir Magna.
AFP-fréttastofan fjallar um stöðu mála í höfuðborg Kongó, Kinshasa, þar sem yfirvöld hafa lokað af hverfi þeirra efnuðustu til þess að forða íbúum þess frá því að smitast af kórónuveirunni. Þetta er skelfilegt högg fyrir þúsundir daglaunafólks sem hefur lífsviðurværi sitt af því að selja varning og annarri vinnu í hverfinu.
Í hverfinu Gombe búa helstu embættismenn ríkisins, milljarðamæringar og þar eru sendiráð erlendra ríkja til húsa. Inn í Gombe fær enginn að fara nema íbúarnir en alls eru íbúar höfuðborgarinnar 12 milljónir talsins. Meirihluti þeirra býr við sára fátækt.
Aðeins þeir sem eru með skriflega heimild fá að koma inn fyrir hlið Gombe. Svo sem embættismenn, diplómatar, læknar og búðareigendur en ekki götusalar.
Gombe, sem var nefnt „Lýðveldið Gombe“ af fyrrverandi sendiherra Frakklands, er nú harðlæst og þeir sem þangað koma þurfa að láta mæla hitastig líkamans og þvo sér um hendurnar áður en þeir fara inn í hverfið.
Einn þeirra sem ekki hefur fengið að fara þangað inn er Alber sem er ljósmyndari. Hann hefur því verið án tekna frá 6. apríl. Áður hafði hann 10-20 Bandaríkjadali upp úr krafsinu á dag við að standa fyrir utan sendiráðin og taka myndir í vegabréf. „Frá lokuninni hef ég verið fastur hér heima,“ segir hann í samtali við AFP-fréttastofuna á heimili fjölskyldunnar í nágrannahverfinu Bandalungwa. Fjölskyldan lifur á launum eiginkonu hans sem vinnur í matvöruverslun.
Áttræður bóksali, Antoine Bienga, sem hefur selt bækur áratugum saman í hverfinu hefur ekki getað sinnt vinnu sinni að undanförnu en lifir á bótum frá ríkinu. Fleiri taka í sama streng og óttast að þeir og fjölskyldur þeirra eigi eftir að verða hungrinu að bráð, ekki veirunni, ef þetta ástand varir mikið lengur.
Magna segir að í fátækrahverfum landsins séu sápa og vatn munaður og þrátt fyrir að margt af því sem talið er að varni kórónuveirusmiti sé það sama og gilti varðandi ebóluna, svo sem handþvottur og að forðast nánd, sé afar erfitt að koma slíkum vörnum við.
Í Kongó er ebólufaraldur, þar ríkja átök, mislingafaraldur og malaría auk annarra sjúkdóma. Ástandið nú hefur ekki bara áhrif á heilbrigðisviðinu heldur einnig efnahagslega og samfélagslega. Birgðaskortur og aðstæður til rannsókna á COVID sýnum er ekki í hverju þorpi og fólk getur veikst af öðrum sjúkdómum líka og sum einkenni líkjast sumum hitabeltissjúkdómum. Þá veltir maður fyrir sér hvað eru margir sem eru bæði með malaríu og COVID – Það er einfaldara og aðgengilegra að gera malaríupróf og fær hann því jafnvel þá greiningu.Hvernig á að kanna stöðuna hjá fólki sem býr í dreifbýli og um langa leið að fara til þess að fá upplýsingar, lyf og aðra þjónustu?“ spyr Magna sem efast um að það muni nokkurn tíma verða ljóst hvort þetta fólk hefur smitast af kórónuveirunni.
„Ísland stendur sig mjög vel í baráttunni við kórónuveiruna en við megum ekki horfa fram hjá því að þetta er heimsfaraldur og við verðum að styðja vel við hvert annað, ekki síst þá sem ekki hafa sterkar grunnstoðir og smæð eins og hér heima þar sem búið er að rekja öll smit og halda vel utan um þá sem hafa smitast. Smitrakning skiptir gífurlega miklu máli en virkar ekki ein og sér það þarf að brjóta smitkeðjuna með einangrun smitaðra, sóttkví þeirra sem hafa komist í nánd við smitaða, handþvott og að halda tveggja metra fjarlægðarmörkum. Eitthvað sem er ekki alltaf möguleiki í þessum fjölmennu fátæku löndum,“ segir Magna Björk Ólafsdóttir.
Átök og hörmungar neyddu 33 milljónir á flótta innan heimalandsins í fyrra og er þessi hópur í enn meiri hættu á að smitast af kórónuveirunni en annars væri, segir í nýrri skýrslu Internal Displacement Monitoring Centre (IDMC) og Norwegian Refugee Council (NRC).
Þetta þýðir að 50,8 milljónir er á vergangi í heimalöndum sínum og hafa aldrei verið fleiri. Þetta er mun hærri tala en þeir sem eru á flótta en alls hafa um 26 milljónir flúið land vegna svipaðra aðstæðna.
Fólk á vergangi er í afar viðkvæmri stöðu og þarf oft að hafast við í yfirfullum búðum, neyðarskýlum eða búa nánast á götunni án aðgangs að heilbrigðisþjónustu, segir framkvæmdastjóri IDMC, Alexandra Bilak.
Hún segir heimsfaraldurinn gera stöðu þeirra enn verri og hættulegri og að vegna hans sé líklegt að takmarkað aðgengi þeirra að þjónustu og mannúðaraðstoð dragist enn frekar saman.
Um 8,5 milljónir íbúa landa eins og Kongó, Sýrlands, Eþíópíu og Suður-Súdan, þurftu að flýja heimili sín vegna átaka í fyrra.