Útilokar ekki að ríkið eignist hlut í Icelandair

Katrín mun ávarpa þjóðina í kvöld.
Katrín mun ávarpa þjóðina í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra útilokar ekki að ríkið muni eignast hlut í Icelandair komi til sértækra stuðningsaðgerða við fyrirtækið. Þetta kom fram í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun. Logi Einarsson, formaður og þingmaður Samfylkingarinnar, og Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata, voru einnig gestir þáttarins. Bæði sögðu þau eðlilegt að ríkið eignaðist hlut í fyrirtækinu ef það væri styrkt um gríðarlegar fjárhæðir. 

„Ef kæmi að einhverjum sértækum stuðningi þá þurfum við að vega það og meta hvort það er eðlilegt að ríkið eignist hlut eða hvort við teljum að hagsmunum ríkisins sé betur borgið með öðrum hætti,“ sagði Katrín og bætti við að samtal þyrfti að eiga sér stað um hvað væri besta leiðin.

Ríkisstjórnin hefur nú þegar samþykkt að eiga samtal við Icelandair um mögulega veitingu lánalínu eða ábyrgð á lánum til fyrirtækisins. Sú aðkoma er þó háð því að söfnun nýs hlutafjár gangi eftir og að lánveitendur taki með fullnægjandi hætt þátt í verkefninu. Katrín sagði að það skipti miklu máli að tryggja flugsamgöngur og tryggja að flugfélag væri með höfuðstöðvar á Íslandi.

Bæði Logi og Halldóra sökuðu ríkisstjórnina að styðja ekki nógu vel við almenning með þeim aðgerðum sem gripið hefur verið til vegna kórónuveirunnar og afleiðinga hennar. Sögðu þau of mikið einblínt á fyrirtækin.

Katrín svaraði því til að bregðast yrði við í takt við eðli kreppunnar. Hún fæli í sér mikinn atvinnumissi vegna tekjumissis ferðaþjónustunnar og afleiddra greina. Það væri því stærsta velsældarmálið að tryggja atvinnustig í landinu. „Við getum ekki rifið þetta í sundur þó það henti í umræðu,“ sagði hún.

Þá benti Katrín á að við værum enn í samkomubanni og að efnahagsaðgerðir réðust af því hvernig faraldurinn þróaðist. Það hefði vissulega áhrif þegar landamæri væru lokuð vegna þess hve miklar tekjur Íslendingar hefðu haft af ferðaþjónustu.

Hún sagði jafnframt að gripið hefði verið mun fyrr inn núna bæði með félagslegan og andlegan stuðning heldur en í efnahagskreppunni fyrir um áratug.

Í þættinum var hún einnig spurð út í ávarpið sem hún ætlar að flytja í kvöld, en hún sagði tilefnið meðal annars vera aflétting á samkomubanni í ástandi sem við hefðum aldrei verið í. Sagðist hún ætla að fara yfir stöðuna og hvert væri verið að stefna. Þá tók hún fram að forsætisráðherra mætti alveg ávarpa þjóðina oftar, en það hefur ekki verið gert síðan Geir H. Haarde bað guð að blessa Ísland árið 2008.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert