4. maí genginn í garð

Á miðnætti  tók gildi tilslökun á samkomubanni á Íslandi. Bannið var fyrst sett á 16. mars en hert enn frekar 23. mars. Ljóst er að margir hafa beðið dagsins með eftirvæntingu enda ýmiss konar starfsemi sem kemst nú í eðlilegt horf á ný, eða í það minnsta eðlilegra en verið hefur.

Þótt slakað sé á samkomubanni er ekki þar með sagt að sóttvarnaaðgerðum sé lokið. Líkt og þríeyki almannavarna hefur ítrekað bent á síðustu daga er mikilvægt að fólk sofni ekki á verðinum og gerist kærulaust. Áfram þurfi fólk að huga að eigin sóttvörnum, þvo hendur og spritta og halda tveggja metra fjarlægð. Því eins og Guðni forseti sagði á blaðamannafundi almannavarna í gær, er hann vitnaði í Churchill: „Þetta eru ekki endalokin, ekki einu sinni upphaf endalokanna en kannski eru þetta endalok upphafsins.“

Helstu breytingar, sem tóku gildi á miðnætti, eru:

  • Fjöldatakmörkun á samkomum miðast nú við 50 manns í stað 20.

  • Engar takmarkanir eru nú settar á starfsemi grunn- og leikskóla. Þeir verða því opnir með eðlilegum hætti.

  • Framhaldsskólar og háskólar verða opnaðir að nýju en fjöldatakmarkanir miðast við 50 manns að hámarki. Tveggja metra regla skal virt.
  • Tannlæknastofur, sjúkraþjálfarar, nuddstofur, hárgreiðslu- og snyrtistofur og önnur sambærileg starfsemi er heimil og undanskilin tveggja metra reglu. Þessi starfsemi hefur legið niðri frá því samkomubann var hert 23. mars.

  • Valkvæðar skurðaðgerðir og ífarandi rannsóknir verða heimilar á ný

  • Listasöfn, bókasöfn o.fl. má opna að nýju.
  • Íþrótta- og æskulýðsstarf barna á leik- og grunnskólaaldri verður með eðlilegum hætti, hvort heldur innan- eða utandyra. Tveggja metra regluna skal virða eins og kostur er.

  • Íþróttastarf fullorðinna skal takmarkast við sjö einstaklinga með þjálfara á útisvæði sem miðast við hálfan fótboltavöll. Innandyra takmarkast hún við fjóra einstaklinga á innisvæði sem miðast við handboltavöll.
    Notkun búningsaðstöðu innanhúss verður óheimil.

  • Ökukennsla, flugkennsla og akstur þjónustubifreiða getur hafist að nýju með undanþágu frá tveggja metra reglu. Leigubílaakstur verður þó ekki undanskilinn tveggja metra reglu.

  • Spilakassa má nota séu þeir sótthreinsaðir milli notenda og reglum um 50 einstaklinga í hópi og tveggja metra reglu fylgt.

Enn skulu skemmtistaðir, krár og spilasalir vera lokuð. Aðrir veitingastaðir með vínveitingaleyfi mega ekki hafa opið lengur en til klukkan 23.

Stefnt er að því að opna sundlaugar fyrir almenningi eftir …
Stefnt er að því að opna sundlaugar fyrir almenningi eftir 3-4 vikur. mbl.is/Hallur Már

Næsta skref tekið eftir 3-4 vikur

Hefja má opið helgihald í kirkjum landsins 17. maí, þjóðhátíðardag Norðmanna.

Í minnisblaði sóttvarnalæknis til heilbrigðisráðherra segir að stefnt sé að frekari afléttingu samkomutakmarkana eftir 3-4 vikur, þ.e. 25. maí – 1.júní, og að þá verði miðað við 100 manna fjöldatakmörkun, opnun sundlauga og líkamsræktarstöðva fyrir almenning með takmörkunum, og að stærð kappleikja og íþróttamóta miðist við 100 manns. Þó er áréttað að taka þurfi mið af stöðu faraldursins hér á landi áður en ákvörðun er tekin.

Tilskipun sem tók gildi í dag, 4. maí.

Minnisblað sóttvarnalæknis, dagsett 19. apríl, vegna tilslakana 4. maí

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert