Slakanir á samkomubanni eru nú hafnar og mikill erill hefur verið á hárgreiðslustofum landsins ásamt annarri þjónustu sem nú er búið að opna. Hjá Nonna Quest á Laugaveginum var byrjað að bóka um leið og ljóst var að opnað yrði í dag og biðröð var fyrir utan Ikea í morgun.
Nonni, eða Jón Aðalsteinn Sveinsson eins og hann heitir fullu nafni, segist hafa saknað þess mikið að ná ekki að spjalla við viðskiptavinina í stólnum. „Maður er vanur því að mæta í vinnuna og fá að vita hvað er að gerast í samfélaginu,“ segir Nonni í samtali við mbl.is. Áfram verður farið eftir viðmiðum um hreinlæti og fjarlægðir á milli fólks enda er mikið í húfi að ekki komi bakslag í aðgerðir til að halda aftur af veirunni þar sem ekki má mikið bregða út af í rekstrinum. „Nú verður maður bara að bretta upp ermarnar og reyna að hala inn. Reyna að koma út úr þessu standandi.“
Myndarleg biðröð var fyrir utan verslun Ikea sem var opnuð að nýju í morgun. Þar hefur verið hægt að versla á netinu og fá vörur afgreiddar en þrátt fyrir það var töluverð eftirvænting eftir opnuninni að sögn Stefáns Rúnars Dagssonar, framkvæmdastjóra Ikea á Íslandi. Alls geta 350 manns verið samtímis inni í búðinni, en henni er skipt upp í sjö svæði þar sem 50 manns geta verið og fylgst er vel með öllum talningum að sögn Stefáns.
mbl.is var á ferðinni í morgun.