Nokkuð hefur borið á því upp á síðkastið að fólk baði sig í affalli Reykjanesvirkjunar. Athæfið getur reynst stórhættulegt og er þar að auki stranglega bannað. Þetta kemur fram í tilkynningu frá HS Orku.
Segir þar að vatnið sem komi úr affallinu sé alla jafna um 35 gráðu heitt. Hitinn geti þó skyndilega aukist í allt að 100 gráður ef aðstæður í orkuverinu breytast.
„Ef það myndi gerast er ljóst að afleiðingarnar gætu orðið skelfilegar,“ segir í tilkynningunni.
„Þá er mjög straumhart í sjónum þarna og mikil hætta á því að þeir sem lenda í straumnum sogist langt frá landi mjög skyndilega og geti sér engar bjargir veitt. HS Orka vill því ítreka við alla að það er stranglega bannað að fara ofan í sjóinn við affallið.
Þetta er ekki náttúrulaug eins og hefur verið haldið fram á samfélagsmiðlum heldur affall frá orkuveri sem getur verið mjög breytilegt eftir aðstæðum.
Á svæðinu eru fyrir merkingar á tveimur stöðum en í ljósi framangreinds mun HS Orka auka merkingar til að öllum sem þarna fara um sé ljóst að þarna sé stórhætta á ferð.“